Heiða bóndi fær góðar undirtektir í Bretlandi

Mynd: RÚV / RÚV

Heiða bóndi fær góðar undirtektir í Bretlandi

28.08.2019 - 12:42

Höfundar

Uppselt var á viðburð Steinunnar Sigurðardóttur og Heiðu Guðnýjar Ásgeirsdóttur á bókmenntahátíðinni í Edinborg í Skotlandi. Bók þeirra, Heiða – fjalldalabóndinn, kom nýverið út á ensku og hefur fengið góðar viðtökur.

Steinunn Sigurðardóttir og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir stigu á svið á síðasta degi bókmenntahátíðarinnar í Edinborg í gær og fjölluðu um bókina Heiða – fjalldalabóndinn. Þetta er önnur stóra hátíðin sem þær taka þátt í á Bretlandseyjum, í apríl kynntu þær bókina á Hay-bókmenntahátíðinni í Wales.

Bókin, sem kom út fyrir skemmstu á ensku hjá bókaforlaginu John Murray, fjallar um ævi Heiðu og baráttu hennar gegn orkufyrirtæki sem ásældist land hennar. Bókin hefur fengið gríðargóðar undirtektir, sagði Steinunn Sigurðardóttir Tengivagninum á Rás 1. Uppselt var á báða viðburði þeirra á hátíðunum, 250 borguðu sig inn í Edinborg og 400 í Wales.

Bókmenntahátíðin í Edinborg er ein sú virtasta í Evrópu. Meðal höfunda sem sóttu hana í ár eru Salman Rushdie, Arundhati Roy, Ali Smith og Ian Rankin. En það eru ekki einungis rithöfundar sem þangað koma heldur einnig stjórnmálamenn. Það kom flatt upp á Heiðu og Steinunni í rithöfundatjaldi hátíðarinnar hver sessunautur þeirra var. „Þar sátum við við hliðina á Gordon Brown,“ segir Steinunn. „Við vorum ekki alveg vissar um hvort við ættum að gefa okkur fram og rifja upp einn og annan atburð í kringum hrunið. En við létum það nú ógert. Við fréttum að öryggisgæslan hafði verið mjög aukin hér frá því í gær og við skildum nú ekkert i því að okkur hefði verið hleypt í næsta sófa við Gordon Brown. Þeir hafa greinilega ekki vitað hverrar þjóðar við Heiða erum. Það hefur eitthvað skolast til,“ segir hún í léttum dúr.

Bókin um Heiðu hefur komið út á fjölda tungumála. Von er á danskri þýðingu, norskri og pólskri, en hún hefur þegar komið út á Ítalíu, Spáni, Hollandi og Serbíu svo dæmi séu nefnd. Að mati Steinunnar er velgengni bókarinnar fólgin í því að þar sé rödd Heiðu í forgrunni þótt Steinunn sé skrifuð fyrir bókinni. „Þetta er algjört samvinnusamtal, auðvitað er Heiða í aðalhlutverki, bókin er um hana en ekki um mig,“ segir Steinunn. „Það er ekki síst mitt afrek að halda mig algjörlega til hlés og láta rödd Heiðu njóta sín. Þannig hef ég komist langbest frá því að gera efninu skil. Fólkinu finnst eins og Heiða tali við það.“
 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Evrópskir útgefendur trylltir í Heiðu

Menningarefni

Nýmóðins kvenhetja í Skaftártungu

Bókmenntir

Fjalldalabóndinn Heiða og barátta hennar