Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hefur skipt um skoðun

20.01.2011 - 22:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Álfheiður Ingadóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra segist hafa skipt um skoðun um staðgöngumæðrun hér á landi og vill að Ísland verði fyrst Norðurlandanna til að leiða hana í lög.

Á Alþingi í dag var rædd tillaga 18 þingmanna úr öllum flokkum nema Hreyfingunni um að undirbúa lagafrumvarp um staðgöngumæðrun hér á landi í velgjörðarskyni. Fyrsti flutningsmaður er Ragnheiður Elín Árnadóttir en hún hefur barist fyrir þessu máli í á þriðja ár. „Ég geri ekki lítið úr því að hér sé um flókið mál að ræða, álitamál, en ég er samt sem áður algjörlega sannfærð um að þetta sé úrræði sem við eigum að heimila hér og mun færa fyrir því rök,“ sagði Ragnheiður Elín í dag.

Áfangaskýrsla sem unnin var í ráðherratíð Álfheiðar Ingadóttur sem heilbrigðisráðherra mælti ekki með því að Ísland yrði fyrst Norðurlanda til að heimila staðgöngumæðrun. Álfheiður skipti um skoðun eftir mál litla drengsins sem staðgöngumóðir ól á Indlandi um miðjan nóvember og er ókominn heim. „Og þá ber svo við þegar málið er komið á dagskrá að ég hef skipt um skoðun. Ég er orðin ein flutningsmanna að þessari tillögu og eindreginn stuðningsmaður þess að staðgöngumæðrun verði lögheimiluð hér á landi og að Ísland verði fyrst Norðurlandanna til að leiða slíkt í lög,“ sagði Álfheiður Ingadóttir á Alþingi í dag.

Fjallað var um staðgöngumæðrun í Speglinum á mánudag. Hlusta