Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hefur mjög alvarleg áhrif á störf nefndarinnar

09.12.2018 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, segir það hafa mjög alvarleg áhrif á störf nefndarinnar að fræðafólk við Háskóla Íslands neiti að vinna með henni á meðan Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins situr þar. Það sé nauðsynlegt að geta leitað álits sérfræðinga.

Í gær sendi fræðafólk við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í fötlunarfræðum bréf til forseta Alþingis þar sem segir að það ætli ekki að starfa áfram með velferðarnefnd á meðan Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, situr þar. Rannveig Traustadóttir, prófessor og forstöðumaður rannsóknarsetursins, sagði þau í áfalli vegna þeirra ummæla sem voru látin falla um fatlað fólk þegar sex þingmenn sátu að drykkju á barnum Klaustri þriðjudagskvöldið 20. nóvember. Þeim væri svo fullkomlega misboðið að þau treystu sér ekki til að vinna með fólki sem tali á þennan hátt.

Þingmennirnir taki ekki ábyrgð á orðum og gjörðum

Halldóra Mogensen segir þetta hafa alvarleg áhrif á störf velferðarnefndar. „Þetta náttúrulega hefur bara mjög alvarleg áhrif, ef að við fáum ekki sérfræðinga sem við þurfum að fá álit frá varðandi þingmál. Rannveig hefur komið fyrir nefndina og það er ótrúlega gott og nauðsynlegt að hafa aðgang að þessu fagfólki,“ segir Halldóra. 

Hún segir þetta afleiðingu þess að þingmennirnir sex axli ekki ábyrgð. „Þetta er náttúrulega bara afleiðing þess að þessir sexmenningar eru ekki að taka ábyrgð á sínum orðum og gjörðum.“

Hefur þú skilning á því að þau neiti að vinna henni Önnu Kolbrúnu? „Já, ég hef skilning á því. Það væri eðlilegast, ef það væri eðlileg stjórnmálamenning hérna heima, þá myndi fólk segja af sér í þessari stöðu.“