Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hefur ekki tekið afstöðu

14.02.2010 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra segist ekki hafa myndað sér skoðun á því hvort leyfa eigi konu að ganga með barn fyrir aðra. Brýnt sé að opinber umræða verði um það hvort heimila eigi staðgöngumæðrun. Vinnuhópur um málið skilaði skýrslu í síðustu viku en tók ekki afstöðu til þessa álitamáls en telur þó skipta máli að löggjöf hér samræmist því sem gerist í nágrannalöndunum. Þar er staðgöngumæðrun óheimil.

Vinnuhópurinn var stofnaður fyrir ári og skilaði skýrslu á fimmtudag. Þar eru dregin fram nokkur rök gegn staðgögnumæðrun, til að mynda gæti það gerst að farið yrði að líta á barn sem söluvöru. Það sama gæti einnig gerst varðandi staðgöngumóður og þannig myndi skapast möguleiki á að kúga konur til að selja aðgang að líkama sínum á nýjan og enn alvarlegri máta en áður hafi þekkst, eins og segir í skýrslunni. Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra hefur ekki tekið afstöðu en bendir á að ekkert Norðurlandanna hemil slíkt. Ef við gerðum það færum við að eiga ákveðið frumkvæði í málinu.

Í lokaorðum skýrslunnar segir að það skipti máli að sem best samræmi sé milli löggjafar hér og í þeim ríkjum sem mest samskipti séu við. Í næsta mánuði verður málþing um staðgöngumæðrun og nýverið voru stofnuð hagsmunasamtök um málið. Álfheiður segir að hún hlakki til að fylgja með henni og taka þátt í þeirri umræðu.