Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hefur ekki heyrt hugmyndir um stjórnarslit

06.09.2019 - 12:58
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Umhverfisráðherra blæs á gagnrýni Sjálfstæðisflokksins um að hann hafi ekki farið að lögum um friðlýsingar. Katrín Jakobsdóttir segist ekki hafa heyrt talað um stjórnarslit frá forystu Sjálfstæðisflokksins. Jón Gunnarsson skrifaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann segir aðferðir umhverfisráðherra við friðlýsingar ekki standast skoðun.

Í greininni segir Jón Gunnarsson jafnframt að umhverfisráðherra sé með þessu að ógna ríkisstjórnarsamstarfinu. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir ótímabært að tala um ágreining milli flokkanna en hann tekur að nokkru undir undir gagnrýni þingmannsins um friðlýsingar umhverfisráðherra. „Ég vonast til að það þurfi ekki að koma til mikils ágreinings um þetta. Það er ekki svigrúm fyrir ólíka túlkun á lögum og reglum um þetta efni,“ segir Bjarni. 

„Jón er að leggja þunga áherslu á það að það sé horft til þess hvernig löggjafaviljinn var, þegar sú ákvörðun var tekin að hefja friðlýsingarferli eftir að einstaka virkjanakostir hafa verið flokkaðir í vernd. Ég get tekið undir það atriði,“ segir Bjarni.

Umhverfisráðherra blæs á gagnrýni Sjálfstæðisflokksins

Jón Gunnarsson segir jafnframt að það sé Alþingis að afgreiða friðlýsingar samhliða rammaáætlun hverju sinni og að það sé ekki hægt að einn maður geti ákveðið friðlýsingarmörk eftir eigin geðþótta.  Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir það á misskilningi byggt. Hann segist hafa kynnt friðlýsingarnar fyrir ríkisstjórn snemmsumars.

„Ég er að fara að lögum, lögum um rammáaætlun og þeim lögskýringargögnum sem að þar liggja að baki. Fara eftir því hvernig verkefnisstjórn og faghópar rammaáætlunar hafa unnið. Þannig það er ekki eftir neinum geðþótta. Það er bara misskilningur,“ segir Guðmundur Ingi.

Segir stjórnarsamstarfið ekki í hættu

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að ef ágreiningur sé um þessi mál þurfi að ræða þau. „Hvað varðar hugmyndir um stjórnarslit hef ég ekki heyrt slíkt frá forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég vænti þess þá að hún ræði það ef það er einhverjar áhyggjur af því,“ segir Katrín.

Þannig að ríkisstjórnarsamstarfið er ekki í hættu? „Nei, ég hef ekki orðið vör við það.“

En er ekki alvarlegt ef að þinn ráðherra nýtur ekki meira trausts en þetta? „Það er svo að ég er mikill talsmaður þess að fólk tali tæpitungulaust og segi sínar skoðanir opinskátt. Þannig að ég geri engar athugasemdir við það í mínum flokki eða öðrum flokkum. Ég lít svo á að ef það er ágreiningur um þessi mál þá sé mikilvægt að taka þau til umræðu,“ segir Katrín jafnframt.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV