Hefur áhyggjur af sjúklingum á Vogi

23.03.2020 - 08:54
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segist hafa áhyggjur af sínum sjúklingahópi vegna Covid-19. Flestir séu þeir í mjög viðkvæmri stöðu.

„Það eru ýmsir hópar í þjóðfélaginnu sem verða út undan þegar mikið reynir á. Það er mikilvægt að við hérna á Íslandi pössum upp á þennan skjólstæðingahóp okkar í öllu heilbrigðiskerfinu,“ sagði Valgerður í  sameiginlegum morgunþætti Rásar 1 og 2 í morgun. 

„Margir reykja, sem er áhættuþáttur, og eru margir líka með undirliggjandi sjúkdóma og eru kannski ekki færir um að huga nógu vel að sér eins og aðrir,“ segir Valgerður. 

Sjúkrahúsið Vogur hefur haldið úti allri sinni starfsemi þrátt fyrir Covid-19 faraldurinn. Þó hefur þurft að draga úr innlögnum til að bregðast við fyrirmælum almannavarna um að hafa tveggja metra bil á milli manna. Segir Valgerður að það hafi gengið vel en að það sé sársaukafullt fyrir marga að fresta innlögn.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi