Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hefur áhyggjur af hönnun hótela í dreifbýli

24.10.2016 - 18:39
Mynd með færslu
Rangárþing ytra. Mynd úr safni. Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
Umhverfisstofnun er ekki ánægð með hvernig staðið var að skipulagi fyrir þriggja hæða, 90 herbergja, hótel og 41 frístundahús í Heysholti í Rangárþingi ytra. Stofnunin telur að á fyrri stigum hefði átt að skoða hvort tveggja hæða byggingar hefðu fallið betur að landi og að mögulega hefði átt að skoða aðra kosti varðandi staðsetningu hótelsins.

Í deiliskipulaginu kemur fram að svæðið sé að mestu gróið hraun og að mikil fjallasýn sé þaðan, svo sem til Heklu, Búrfells, Vatnafjalla, Tindfjallajökuls og Eyjafjallajökuls. Samkvæmt deiliskipulagi er gert ráð fyrir að heildarfjöldi gesta á fullbyggðu svæði verði um 448 og að starfsmenn verði á bilinu 20 til 25.

Umhverfisstofnun segir að þótt ekki sé líklegt að framkvæmdirnar muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif  sé óheppilegt hve hönnun mannvirkja sé langt komin og að mótaðar hugmyndir um stærð, útlit og staðsetningu bjóði upp á takmarkaða möguleika til mótvægisaðgerða. 

Umhverfisstofnun segir að umfjöllun um valkosti og mótvægisaðgerðir hefði átt að fara fram fyrr á skipulagsstiginu. Þannig hefði verið meira svigrúm til að leggja frekari áherslu á að koma mannvirkjum betur fyrir í landi og draga úr neikvæðum áhrifum.

Umhverfisstofnun segir að viðleitni til að takmarka ljósmengun geti vart talist til mótvægisaðgerða, mannvirkin verði áberandi. Raunverulegar mótvægisaðgerðir væru að hafa hótelið á tveimur hæðum og jafnvel aðra staðsetningu þar sem reynt væri að fella bygginguna að mishæðum í landi og freista þess að draga úr ásýnd mannvirkisins. 

Í mati Umhverfisstofnunar eru jafnframt viðraðar áhyggjur af hótelum sem risið hafa á allra síðustu árum í dreifbýli. Þetta séu stærstu mannvirki sem byggð hafi verið síðan skólar og félagsheimili voru reist á síðustu öld. „Umhverfisstofnun telur að við hönnun og staðarval nokkurra þeirra hótela sem nú eru ýmist í byggingu eða fullbúin hefði mátt huga betur að þessum þáttum.“

Samkvæmt svari iðnaðarráðherra á Alþingi fyrir tveimur árum var fyrirhugað að taka í notkun 400 herbergi utan Reykjavíkur frá 2014 eða eftir þann tíma. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV