Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hefur áhyggjur af framtíð Fjallabyggðar

05.01.2019 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Bæjarstjórinn í Fjallabyggð hefur áhyggjur af framtíð sveitarfélagsins. Íbúum hefur fækkað. Bæjarráð vill að ríkisstofnanir verði fluttar í sveitarfélagið til að fjölga atvinnutækifærum.

Með opnun Héðinsfjarðarganga árið 2010 birti til í Fjallabyggð, einkum á Siglufrði, enda urðu samgöngur mun auðveldari. Fjárfestingar tóku kipp, til dæmis í líftækni og ferðamennsku, störfum fjölgaði og íbúum sömuleiðis. Nú hefur þróunin snúist við og íbúum í sveitarfélaginu fækkað um 2% á þremur árum.

Ferðamennskan ekki staðið undir væntingum

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri, segir að ein orsökin liggi í tækniframförum í sjávarútvegi og fækkun skipa. Færra starfsfólk þurfi en áður. „Svo náttúrulega bundu menn miklar vonir við ferðamennskuna, en stefna yfirvalda í því er vægast sagt þokukennd, þannig að það hefur gengið verr en menn ætluðu að dreifa ferðamönnum um landið,“ segir Gunnar.  

Stingur upp á fyrirtækjaskrá og hlutafélagaskrá

Gunnar sendi nýverið bréf til oddvita ríkisstjórnarflokkanna, fyrir hönd bæjarráðs, og bað þau að kanna hvort hægt sé að flytja ríkisstofnanir til Fjallabyggðar. Stungið er upp á litlum og meðalstórum stofnunum, til dæmis hlutafélagaskrá eða fyrirtækjaskrá, sem gætu blómstrað í Fjallabyggð með nútímatækni. „Hér er hagfellt að hafa slíka starfsemi, hér er húsnæðiskostnaður lægri, vinnuaflið tiltölulega stöðugt og það eru allar ríkisstjórnir búnar að vera með það á stefnuskrá sinni að stuðla að byggð í landinu. Menn verða þá að meina eitthvað með því,“ segir Gunnar. 

Vel hafi gefist að færa stofnanir út á land, enda sé ekkert lögmál að þær þurfi að vera í miðbæ Reykjavíkur. 

„Þarf að bregðast við“

Ertu áhyggjufullur varðandi framtíð Fjallabyggðar? „Ég hef svona ákveðnar áhyggjur, já. Þess vegna hef ég verið að reyna ýmislegt og við vonum náttúrulega að það komi hér fiskeldi í Eyjafjörð og fleira sem mun skapa hér störf. Ef það eru ekki störf, þá er ekki mannnskapur. Það þarf að bregðast við og snúa þessari þróun við,“ segir Gunnar.  

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV