Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hefndarþorsti og ósanngirni

24.09.2011 - 12:18
Björgólfur Thór Björgólfsson segir í viðtali við helsta viðskiptablað Noregs í dag að uppgjör Íslendinga eftir útrásartímabilið hafi einkennst af hefndarþorsta og ósanngirni. Hann segist að ósekju hafa verið kallaður lygari í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og því ekki trúað að hann ætti fyrir skuldum. Þá segist hann sjá mjög eftir að hafa keypt Landsbankann. Skuldir sínar í dag metur hann á rúma 1000 milljarða íslenskra króna.

Viðtalið við Björgólf Thor nær yfir níu síður í helgarblaði Dagens Næringsliv, helsta viðskiptablaði Noregs.

Björgólfur fer þar hörðum orðum um uppgjör landa sinna við útrásartímabilið. Hann segir að hugsunin hafi verið sú ein að svipta alla sem tóku þátt í útrásinni æru sinni.

Hann segir að nær hefði verið að skipa sannleiksnefnd að hætti Suður-Afríkubúa og gera hlutlaust upp það sem gerðist. Í stað þess hafi verið valin leið rógs og dóma.

Er með allt í skilum

Björgólfur segir að margt hafi verið óvandað í vinnubrögum Rannsóknarnefndar Alþingis. Í skýrslu nefndarinnar standi ómótmælt að hann sé lygari, og þáverandi fjármálaráðherra landsins borinn fyrir því.

Sjálfur hafi hann ekki verið kallaður fyrir nefndina til skýra mál sitt. Hann hafi verið borgunarmaður fyrir skuldum sínum og ólíkt öðrum íslenskum athafnamönnum haft trygg veð fyrir lánum.

Samt sé hann alltaf settur á bás með mönnum sem fengu lán án ábyrgða.

Björgólfur segir að allar athafnir hans í viðskiptum hafi miðað að því að rétta við orðspor fjölskyldu sinnar eftir Hafskipsmálið.

Nú sé hann enn í sömu sporum og reyni að bjarga æru sinni eftir útrásina og bankahrunið. Hann segir skuldir sínar vera rúmlega 1000 milljarða íslenskra króna en allt sé í skilum.

Stærstu mistökin á ferlinum hafi verið að kaupa Landsbanka Íslands. Eftir því hafi hann oft séð, bæði fyrir og eftir fall bankans.