Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hefndarklám verði refsivert

13.09.2015 - 11:26
Lyklaborð ferðatölvu í forgrunni og skjáborð í bakgrunni.
 Mynd: Stocksnap.io
Þingflokkur Bjartrar framtíðar vill að dreifing og móttaka hefndarkláms verði gerð refsiverð samkvæmt lögum. Verði frumvarpið að lögum liggur allt að tveggja ára fangelsi við slíkum brotum.

Þingflokkurinn hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á almennum hegningarlögum sem felur í sér bann við hefndarklámi. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en líkt og fjölmörg önnur mál náði ekki að afgreiða það. Samkvæmt því verður ólöglegt bæði að dreifa og taka við hefndarklámi.

Dreifing hefndarkláms hefur aukist mjög að undanförnu. Æ fleiri konur leita til Stígamóta eða lögreglu vegna slíkra mála. Í skýringum með frumvarpinu eru teknar, sem dæmi um aukna útbreiðslu hefndarkláms, fréttir af erlendri spjallsíðu þar sem íslenskir karlmenn skiptust á myndum af fáklæddum íslenskum stúlkum, allt niður í þrettán ára aldur. Myndir af íslenskum stúlkum á síðunni skiptu hundruðum. Dæmi eru um að myndir af enn yngri stúlkum séu í dreifingu á netinu

Þá virðist raunin vera sú að konum í áberandi stöðum í samfélaginu, t.d. í kvikmyndaleik, hefur verið að því er virðist kerfisbundið ógnað með dreifingu á myndefni af þeim sem er til þess fallið að lítillækka og kúga. Alheimssamfélagið hefur brugðist við, umræðan hefur verið mikil og niðurstaðan er sú að í raun í sé um kynferðisafbrot að ræða.“ -Segir í greinargerðinni.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV