Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hefja viðræður um 250 milljarða lán

02.10.2013 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Slitastjórn gamla Landsbankans hefur fallist á beiðni nýja Landsbankans um að hefja viðræður um að breyta endurgreiðslum láns upp á tvöhundruð og fimmtíu milljarða króna í erlendum gjaldmiðlum. Slitastjórnin tilkynnti kröfuhöfum þrotabúsins þetta á fundi í morgun.

Nýi Landsbankinn bað í sumar kröfuhafa gamla Landsbankans um meiri tíma til að endurgreiða skuldabréfið, sem nýi bankinn gaf út á þann gamla í árslok 2009. Byrja átti að greiða af skuldabréfinu á næsta ári. Bankastjóri nýja bankans sagði nýlega að hann hefði greitt 73 milljarða af láninu í fyrra og ætti tök á að greiða annað eins nú. 

Í tilkynningu frá slitastjórninni vegna kröfuhafafundarins kemur fram að ætlað virði eigna þrotabúsins hafi hækkað um jafnvirði 24 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi, þar af um tæpa sex milljarða vegna gengisbreytinga. Áætlaðar endurheimtur í lok tímabilsins hafi að jafnvirði verið um 206 milljörðum króna hærri en samþykktar forgangskröfur í slitameðferðinni.  

Á fundinum var kröfuhöfum gerð grein fyrir niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli kröfuhafa gegn þrotabúi gamla Landsbankans í síðustu viku. Þar var því slegið föstu að reikna ætti greiðslur til kröfuhafa í erlendum gjaldmiðli út frá gengi íslensku krónunnar á greiðsludegi, en ekki út frá genginu í upphafi slitameðferðarinnar, í apríl 2009. Í tilkynningunni kemur fram að dómurinn hafi þá þýðingu að þær greiðslur sem kröfuhafar hafi fengið úr þrotabúinu nemi nú tæpum 54 prósentum af forgangskröfum, í stað 55 prósenta, eins og fyrri reikniaðferð hafi falið í sér.