Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hefja undirbúning að stækkun Akureyrarflugvallar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Viðbygging við flugstöðina á Akureyrarflugvelli og stækkun á flughlaði vallarins er meðal framkvæmda sem ríkisstjórnin leggur til að hefjist strax í flýtifjárfestingarátaki stjórnvalda sem kynnt var í Hörpu á laugardag. Stefnt er að því að bjóða verkið út í vor og má áætla að um 40 ársverk skapist hjá verktökum á svæðinu. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni nú síðdegis. Ekki var gert ráð fyrir uppbyggingu Akureyrarflugvallar í fimm ára samgönguáætlun sem kynnt var í haust og var því harðlega mótmælt fyrir norðan. Sigurður Ingi sagði þá meðal annars að fjármagn til uppbyggingar vallarins væri ekki í augsýn.

Auk framkvæmda við Akureyrarflugvöll er nú stefnt að því að endurnýja malbik á Egilsstaðaflugvelli sem fyrst. Verja á 500-600 milljónum í verkefnin í ár til undirbúnings. 

„Mikilvægt er að bregðast hratt við en gera jafnframt langtímaáætlanir eins og kostur er í þessari erfiðu stöðu sem samfélagið glímir við. Halda áfram að byggja upp vegi, flugvelli og hafnir svo samfélagið verði í stakk búið þegar Covid-19 faraldurinn verður um garð genginn. Þrátt fyrir hrun í ferðaþjónustunni er brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða og eru flugvellir einn af lykilþáttum fjárfestingarátaksins,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ráðherra greinir einnig frá því að annað átak er í undirbúningi sem tekur við á árunum 2021-2023 og mun flýting þessara framkvæmda sem og annarra samgönguframkvæmda birtast þar.