Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hefðu sagt upp fleiri starfsmönnum - greiða engan arð

Mynd með færslu
Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Bláa lónið hefði sagt upp enn fleira fólki en þeim 160 sem þegar hefur verið sagt upp, ef hlutastarfaúrræði ríkisstjórnarinnar hefði ekki komið til. Þetta segir Grímur Sæmundsen, forstjóri fyrirtækisins. Enginn arður verði greiddur út hjá fyrirtækinu á þessu ári.

Bláa lónið hefur verið gagnrýnt fyrir að fara hlutastarfaleiðina, á sama tíma og eiginfjárstaða þess er góð, auk þess sem það hefur greitt út myndarlegan arð á undanförnum árum. Um 600 manns vinna enn hjá fyrirtækinu eftir að um 160 manns var sagt upp eftir að kórónuveirufaraldurinn kom upp. En hvers vegna var ákveðið að fara hlutastarfaleiðina þegar fjárhagsstaða fyrirtækisins er góð?

„Já það er svo sem alveg eðlilegt að menn spyrji að þessu,“ sagði Grímur í Morgunþætti Rásar 1 og 2 í morgun. „En kjarninn er sá að við erum að reyna að verja þessi 600 störf. Og ef við hefðum ekki nýtt þetta úrrræði, sem ég tel að hafi verið mjög gott útspil hjá ríkisstjórninni, að reyna að tryggja ráðningarsamband milli fyrirtækja og starfsmanna sem lengst, og minnka þörf á uppsögnum, þá hefðu í okkar tilfelli uppsagnirnar verið meiri, og höggið þeim megin bara meira. Þannig að við teljum okkur vera að vinna með stjórnvöldum í að reyna að verja þessi störf. Og það er okkar verkefni.“

Samfélagsleg ábyrgð

Grímur segir að flestir starfsmenn fari í 25% starfshlutfall. Þá segir hann að samdrátturinn hjá fyrirtækinu geti orðið 50% á þessu ári. Fyrirtækið verði tekjulaust út apríl, og tekjulaust eða tekjulítið út maí að minnsta kosti.

„Við erum að reyna að nýta tímabilið til þess að halda grunnstoðum félagsins gangandi. Og munum nota tímann núna til þess að sinna viðhaldsverkefnum og viðskiptaþróunarverkefnum. Og höldum áfram með stafræna þróun hjá fyrirtækinu. Að sjálfsögðu vöktum við líka sölu- og markaðsmálin. Vegna þess að þetta eru allt saman þættir sem við horfum til þess að bæta okkar samkeppnishæfni til að takast á við viðspyrnuna þegar hún kemur.“ 

Grímur segir að fyrirtækið ætli ekki að fara aðrar leiðir sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á, svo sem að þiggja brúarlán.

Þá segir hann að enginn arður verði greiddur út úr fyrirtækinu á þessu ári.

„Það segir sig alveg sjálft. Það væri algjörlega óábyrgt. Og í andstöðu við það sem ég var að segja áðan um að sýna rekstrarlega og samfélagslega ábyrgð í að vernda þessi störf sem við ætlum að vernda hjá fyrirtækinu,“ segir Grímur.