Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hefði verið hægt að afgreiða erindi ÍE á þriðjudag

08.03.2020 - 07:58
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir misskilnings gæta í málflutningi Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um afstöðu stofnunarinnar til boðaðrar skimunar á kórónaveirunni sem veldur COVID-19. Bæði Persónuvernd og Vísindasiðanefnd hafi verið tilbúin að taka erindi fyrirtækisins til flýtimeðferðar og hægt hefði verið að afgreiða það í síðasta lagi á þriðjudag, að fengnum tilskildum gögnum, og Kári hafi verið upplýstur um það strax í gær.

Þá hafi mátt skilja erindi fyrirtækisins þannig, að hluti þess fæli í sér vísindarannsókn á heilbrigðissviði, og um það gildi ákveðin lög. Því hafi verið kallað eftir nánari skýringum, en alltaf með það fyrir augum að greiða fyrir framgangi málsins, enda mikið í húfi.

Verður að fara að lögum

Í færslu á Facebook sakar Kári Stefánsson Persónuvernd og Vísindasiðanefnd um að standa í vegi fyrir því að fyrirtækið aðstoði heilbrigðisyfirvöld við að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 með skimun, sýnatöku og greiningu. Helga segir persónuvernd hafa borist erindi Íslenskrar erfðagreiningar síðdegis í gær.

„Þar kom fram að fyrirtækið hefði boðist til þess að aðstoða heilbirgðiskerfið við að öðlast skilning á því, hvernig COVID-veiran hagar sér,“ sagði Helga í samtali við fréttastofu í gærkvöld. „Lýsingin á verkefninu gaf til kynna að það væri tvíþætt og fæli annars vegar í sér heilbrigðisþjónustu, sem ekki kallar á aðkomu persónuverndar, og hins vegar kynni að vera um að ræða vísindarannsókn á heilbrigðissviði, sem væri þá háð leyfi Vísindasiðanefndar.“

Umsókn um slíkt þarf að meðhöndla í samræmi við ákvæði laga um slíkar rannsóknir, sem mæla fyrir um að þær skuli yfirfarnar af Persónuvernd áður en þær eru afgreiddar hjá Vísindasiðanefnd. „Þetta eru bara gildandi lög í landinu sem öllum ber að sjálfsögðu að fara eftir,“ segir Helga.

ÍE upplýst um flýtimeðferð 

Helga segir að Íslensk erfðagreining hafi verið upplýst um það strax í gær, að að bærust öll tilskilin gögn hið fyrsta mætti gera ráð fyrir að umsóknin gæti verið tekin fyrir hjá Vísindasiðanefnd í síðasta lagi næstkomandi þriðjudag, eftir flýtimeðferð hjá báðum aðilum, Persónuvernd og Vísindasiðanefnd.

Og Helga áréttar að skimun fyrir veirusýkingu, ein og sér, sé ekki leyfisskyld. „Það er alveg ljóst að ef það sem Íslensk erfðagreining ætlar að gera er bara liður í heilbrigðisþjónustu, nákvæmlega það að greina sýnin, þá varðar þetta ekki Persónuvernd og, eftir því sem ég hef upplýsingar um, ekki Vísindasiðanefnd heldur. Hins vegar, þegar fyrirtækið ætlar að vinna frekar með þessar upplýsingar, eins og að raðgreina sýnin eða nýta sér þau að einhverju öðru leyti, þá fellur það undir lög í landinu sem heita Lög um vísindarannsóknir, og þá þarf að fara að þeim lögum."

Af erindi Íslenskrar erfðagreiningar hafi þó ekki verið fullljóst, hvort um tvö aðskilin verkefni hefði verið að ræða eða eitt, tvíþætt verkefni, sem meðal annars fæli í sér nokkuð sem virtist helst vera vísindarannsókn. Til að hægt væri að afgreiða erindið fljótt og vel þurfti einfaldlega að fá þetta á hreint.

Allir tilbúnir að leggjast á eitt 

- Má þá segja að leyfi fyrir fyrri hlutanum - töku og greiningu sýna - hefði runnið í gegn, eða jafnvel ekki þurft að veita, en seinni hlutinn, raðgreiningin og úrvinnslan úr henni, hefði þurft að fara sína leið í gegnum Persónuvernd og Vísindasiðanefnd?

„Já. Miðað við erindið sem við fáum síðla eftirmiðdags á laugardegi, þá er það það sem virðist liggja fyrir í þessu máli," segir Helga.  „En bara til þess að hafa það alveg á hreinu, að þegar hefðbundnar umsóknir um vísindarannsóknir berast þá berast þær Vísindasiðanefnd , sem síðan framsendir þær til Persónuverndar, sem hefur tíu vinnudaga til að skila áliti.

Og venjulegar rannsóknir taka mögulega vikur og jafnvel mánuði, en það lá algjörlega skýrt fyrir og Íslensk erfðagreining var upplýst um það aftur [síðdegis á laugardag]. að miðað við þær aðstæður sem við búum við á þessu landi núna og þessa óvissu sem ríkir og það, hve mikið er undir, þá voru allir tilbúnir að leggjast á eitt að láta þetta gerast einn, tveir og þrír.

Þannig að ég ræsti mitt fólk út og er búin að vera í samtölum við landlækni og framkvæmdastjóra Vísindasiðanefndar og fleiri aðila, allt til þess að láta þetta gerast, þannig að það væri búið að ljúka þessu öllu saman næsta þriðjudag. Og það var búið að tilkynna fyrirtækinu þetta í dag," sagði Helga Þórisdóttir í gærkvöld.