Hefði Snorri Sturluson átt plasthluti...

Mynd með færslu
 Mynd:

Hefði Snorri Sturluson átt plasthluti...

13.03.2014 - 16:27
Plast brotnar svo hægt niður í náttúrunni að hefði Snorri Sturluson á plasthluti væru þeir hugsanlega á sveimi í nokkrum þeirra plastfláka sem myndast hafa í höfunum. Plastið sem safnast saman í fláka er ekki eina birtingarmynd uppsöfnunarinnar. Örsmáar plastagnir eiga greiða leið inn í fæðukeðjuna.

Stefán Gíslason fjallar í dag um uppsöfnun plasts í höfunum og hvaða leiðir séu hugsanlegar til úrbóta.

Sjónmál fimmtudaginn 13. mars 2014 

-----------------------------------------------------------  

Plastflákar

Í spjalli okkar Hönnu G. Sigurðardóttur í Sjónmáli á þriðjudaginn barst talið að plastflákunum á úthöfunum, en þangað fara meðal annars plastflöskurnar sem við missum frá okkur í dagsins önn og auðvitað líka slatti af hinu plastinu sem einhvern veginn sleppur út í veður og vind. Sumir segja að plastflöskur séu allt að helmingurinn af því sem þarna er að finna, en engar áreiðanlegar tölur eru svo sem til um það.

 

Þegar talað er um plastfláka í höfunum dettur flestum fyrst í hug plasteyjan sem lónar einhvers staðar úti á miðju Kyrrahafi, ekki svo langt frá Hawaii. Þessari eyju, sem er sögð vera 7-14 sinnum stærri en Ísland, hafa verið gerð góð skil í heimildarmyndum á borð við Midway og Plastic Paradise. Reyndar er þetta ekki eyja í orðsins fyllstu merkingu, því að hún er engan veginn svo föst fyrir að hægt sé að ganga þar um. Þess vegna er réttara að tala um fláka. En flákinn í norðanverðu Kyrrahafinu er ekki sá eini. Á sunnanverðu Kyrrahafi er annar slíkur, sá þriðji á norðanverðu Atlantshafi, sá fjórði sunnar á sama hafi og sá fimmti á Indlandshafinu. Svona flákar myndast sem sagt á miðjum úthöfum, nánar tiltekið í grennd við hvarfbaugana, þar sem hafstraumar safna smátt og smátt öllu lauslegu inn á sama svæði. Svo er auðvitað hellingur af plasti á floti eða marandi í hálfu kafi annars staðar í höfunum. Mest af þessu plasti endar líklega ferðalag sitt í plastflákunum með tíð og tíma.

 

Enginn veit með vissu hversu mikið plast er í flákunum fimm, en samanlagt eru þetta vafalaust tugir milljóna tonna. Plastið er þegar farið að valda margvíslegum skaða, bæði í vistkerfinu og í hagkerfinu, og í báðum kerfum lendir kostnaðurinn alla jafna á öðrum en þeim sem orsakaði vandamálið. Svo dæmi sé tekið úr hagkerfinu, þá er áætlað að kostnaður útgerða í Skotlandi vegna plasts sem flækist í veiðarfæri, skrúfur og vatnsinntök samsvari um 5% af tekjum útgerðarfyrirtækjanna. Skaðinn í vistkerfinu er af ýmsum toga. Dýr geta t.d. kafnað við að gleypa plast eða fá það utan um hálsinn, og þegar plastið brotnar niður í smærri einingar kemst það líka auðveldlega inn í fæðukeðjuna. Sumt plast inniheldur skaðleg aukaefni sem leka smátt og smátt út þegar plastið brotnar niður. Og jafnvel þótt engin aukaefni séu upphaflega til staðar í plastinu, þá setjast ýmis eiturefni sem borist hafa út í náttúruna iðulega á litlar plastagnir og nota þær sem ferjur, ef svo má að orði komast. Plastið getur líka borið með sér framandi lífverur og breytt tegundasamsetningu með því að bæta aðstæður tiltekinna lífvera á kostnað annarra. Dæmi um slíkt eru skordýr sem festa egg sín við plastagnir í hafinu og geta þannig fjölgað sér mun meira en ella, með tilheyrandi áhrifum á dýrasvif og aðrar lífverur sem skordýrin nærast á, og svo koll af kolli. Nú eru menn meira að segja farnir að tala um plasthvolfið eða plastisphere, sem er í rauninni alveg nýtt manngert lífkerfi sem hefur verið að myndast í höfunum á síðustu 60 árum. Þetta byrjar allt með bakteríum, sumum áður óþekktum, sem setjast að á plastinu, og svo byrjar ný framvinda sem enginn veit hvert leiðir okkur.

 

Ég minntist á það áðan að plastið brotnaði smátt og smátt niður í smærri einingar. Það er ekkert endilega til bóta. Plastagnir sem við sjáum ekki með berum augum þrengja vissulega ekki að hálsi fugla eða sæljóna, en eftir því sem agnirnar eru smærri er leið þeirra inn í fæðukeðjuna greiðari. Þess vegna er líka gott að hafa í huga að plastið sem við missum út í náttúruna er ekki bara í formi plastpoka og plastflaskna. Þetta getur verið allt frá heilu byggingarhlutunum niður í míkróplast, þ.e.a.s. örsmáar plastagnir sem framleiðendur eru illu heilli farnir að bæta í neytendavörur af ýmsu tagi, svo sem skrúbbkrem og tannkrem fyrir enn hvítari tennur.

 

Plastflákarnir í höfunum stækka ár frá ári, enda er áætlað að við missum árlega 7-10 milljónir tonna af plasti í sjóinn. Sumir ganga svo langt að segja að um 10% af öllu því plasti sem framleitt er endi feril sinn þar. Þá værum við að tala um hátt í 30 milljónir tonna á ári. Og jafnvel þótt við myndum öll snarhætta að sleppa plasti út í buskann eða niður um niðurfallið, þá verða flákarnir á sínum stað næstu aldir ef ekkert er að gert, þó að stykkin minnki sjálfsagt eitthvað hvert um sig. Það tekur venjulegt plast nefnilega allt upp í nokkrar aldir eða jafnvel 1.000 ár að brotna niður til fulls. Sakleysislegar plastumbúðir sem við sleppum frá okkur í hugsunarleysi gætu sem sagt átt eftir að velkjast þarna úti miklu lengur en auðvelt er að ímynda sér. Þar gætu þær meira að segja hitt illa farin plastbrot úr dánarbúi Snorra Sturlusonar, þ.e.a.s. ef Snorri hefði ekki verið uppi 700 árum áður en fyrstu plasthlutirnir litu dagsins ljós.   

 

Nú er von að spurt sé hvers vegna menn fari ekki bara með einhver troll og fiski þetta drasl upp úr sjónum. Slíkar aðgerðir eru satt best að segja illframkvæmanlegar, eða allt að því eðlisfræðilegur ómöguleiki, svo gripið sé til orðalags úr umræðu samtímans. Annars vegar gerir stærð flákanna og fjarlægð þeirra frá landi það að verkum að hreinsunarvinnan myndi útheimta ótrúlegt magn af eldsneyti og kosta hærri fjárhæðir en auðvelt er að nefna. Og hins vegar myndi allt of mikið af hinu upphaflega lífríki svæðisins fylgja með í trollið. Síðastliðið haust kynnti hins vegar Boyan nokkur Slat, 19 ára stúdent við Tækniháskólann í Delft í Hollandi, uppfinningu sem hann telur að nýta mætti til að hreinsa upp allan ósómann á 5 árum. Og í þokkabót telur hann að hægt verði að selja plastið sem safnast til endurvinnslu og orkuvinnslu fyrir allt að 500 milljónir dollara á ári. Það samsvarar hátt í 60 milljörðum króna.

 

Uppfinning Boyans Slat er einföld og þarfnast engrar utanaðkomandi orku, annarrar en sólarljóssins og straumanna í hafinu. Þetta er nokkurs konar bóma sem flýtur á yfirborðinu og beinir straumnum með plastinu í gegnum safnara, þar sem plastið verður eftir en megnið af lífverunum sleppur. Svo þarf bara að tæma safnhólfið nógu oft til að það yfirfyllist ekki.

 

Uppfinning Boyans Slat á eftir að sanna gildi sitt. Við hin getum bara vonað það besta. Reyndar getum við gert mun betur en það. Við hin, hvort sem við erum einstaklingar, fyrirtæki eða stjórnvöld af einhverju tagi, þurfum einfaldlega að sjá til þess, frá og með deginum í dag, að frá okkur fari ekki arða af plasti út í náttúruna, hvorki út um bílglugga, í göturæsið, niður um niðurfallið, frá urðunarstöðum, byggingum né neinu öðru. Sjálfsagt getur hvert okkar um sig talið sér trú um að flestir aðrir eigi miklu stærri sök í þessu máli en við. En hér gilda engar afsakanir. Við verðum sjálf að vera breytingin sem við viljum sjá, alveg eins og Mahatma Gandhi orðaði það á sínum tíma.