Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hefði átt að víkja alfarið úr embætti

16.08.2014 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Innanríkisráðherra hefði átt að víkja alfarið úr embætti á meðan dómsmál á hendur aðstoðarmanni hennar til meðfeðar. Þetta er mat formanna stjórnarandstöðuflokka á Alþingi. Málið snúist einnig um hvort ráðherra hafi sagt Alþingi ósatt.

Fréttastofa hefur ekki náð í Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríksiráðherra í morgun. Þá hefur ekki náðst í Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra né Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins. Það liggur því ekki fyrir hvaða ráðherra fer með málefni dómstóla og ákæruvalds á meðan dómsmál á hendur aðstoðarmanni ráðherra er til meðferðar.

Ekki nógu langt gengið

Forystumenn stjórnarandstöðuflokka á Alþingi efast um að Hanna Birna gangi nægilega langt með því að segja sig frá þessum málum og leysa aðstoðarmann sinn frá störfum. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, segir að ráðherra hefði átt að segja sig fyrr frá málaflokknum. „Ég hefði nú viljað sjá hana segja sig mun fyrr frá þessum málaflokki, mun fyrr í ferlinu hefði verið tilefni til þess. Mér finnst spurningin sem blasir við, hvað vissi ráðherra og hvað ekki. Ef aðstoðarmaður hennar hefur lekið minnisblaðinu með hennar vitneskju, þá er það grafalvarlegt mál fyrir ráðherrann og þá hefur hún sagt ósatt.“ Guðmundur segir það vera stóra og aðkallandi spurningu fyrir Hönnu Birnu hvort seta hennar í embætti sé ekki farin að skaða stjórnsýsluna og ráðuneytið.

Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata tekur í sama streng. „Það er eins og hún máli sig alltaf sífellt lengra út í horn og það er langeðlilegast að hún segi af sér á meðan þetta mál er í gangi alfarið. Þetta er bara eitt ráðuneyti og það er ekki hægt að segja sig frá einhverjum starfshlutum. Mér finnst þetta mjög einkennileg viðbrögð.“

Ráðherra beri ábyrgð á aðstoðarmanni sínum

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir að málið allt frá upphafi sé mjög alvarlegt. „Og síðan það sem hefur fylgt á eftir. Ófullnægjandi upplýsingagjöf til þingsins. Óformlegir fundir og óbókaðir á á meðan á rannsókn málsins stendur og það er ljóst að í raun og veru hefði ráðherra átt að stíga til hliðar strax í upphafi málsins, það hefði líklega farið best á því. Ráðherra ber pólitíska og stjórnskipunarlega ábyrgð á aðstoðarmanni, þannig að það er ljóst hvar ábyrgðin liggur í þessu máli.“