Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Hef ekki séð út um glugga í þrjár vikur“

18.03.2020 - 14:56
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þórisdóttir
Nokkur hús á Ólafsfirði eru bókstaflega á bólakafi eftir verðurofsa síðustu vikna og fólk orðið langþreytt á ástandinu. Kona á Ólafsfirði lítur þó á björtu hliðarnar og segist eiginlega sjálfkrafa vera í einangrun.

Anna Þórisdóttir á Ólafsfirði var hin hressasta þegar fréttastofa náði tali af henni í dag enda búið nýbúið að moka hana út. Það tók menntaskólanema einn og hálfan tíma. Það var svo mikill snjór að einfaldara var að moka göng en að moka sig niður að hurðinni. 

Mynd með færslu

Anna segir að það sé búið að moka hana út reglulega í svona 2-3 vikur. Fyrir fimm dögum hafi verið mokað síðast og þá niður að hurðinni, nú hafi skaflinn hins vegar verið orðinn of hár til þess. Svipaða sögu sé að segja af um tíu húsum til viðbótar og hún viti af ellilífeyrisþegum sem séu lokaðir inni og vonast til að verði mokaðir út fljótlega. 

Menn muna ekki annað eins

Hún segir snjómagnið og veðurofsann á Ólafsfirði oft hafa verið slæman en veturinn sé að ná nýjum hæðum. „Hjá mér er húsið alveg á kafi og ég er í myrkri, ég hef ekkert séð út um glugga í einhverjar þrjár vikur.“

Þá sé búið að vera lokað nær daglega til Siglufjarðar, enda gangi illa að halda Héðinsfirði opnum vegna veðurs. Björtu hliðarnar séu þó þær að í svona ástandi sé maður svolítið sjálfkrafa í einangrun. „Það verður eiginlega að gera svolítið grín að þessu, það er ekkert annað hægt,“ segir Anna. 

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir