Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Haukur Heiðar í raðir AIK í Svíþjóð

Mynd með færslu
 Mynd:

Haukur Heiðar í raðir AIK í Svíþjóð

24.11.2014 - 11:41
Hægri bakvörðurinn Haukur Heiðar Hauksson, sem hefur leikið með KR í úrvalsdeild karla í knattspyrnu síðustu ár, er genginn í raðir AIK í Stokkhólmi.

Haukur Heiðar, sem er 23 ára, skrifaði undir fimm ára samning við AIK sem er eitt stærsta félag í Svíþjóð. Liðið hafnaði í 3. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en heimavöllur liðsins í Stokkhólmi, Friends Arena, er jafnframt heimavöllur sænska landsliðsins og tekur 54 þúsund manns í sæti. 

Haukur Heiðar er uppalinn hjá KA á Akureyri en hann skipti yfir til KR árið 2012 og var einn besti leikmaður Vesturbæjarliðsins á nýafstaðinni leiktíð. KR-ingar hafa misst marga lykilmenn en auk Hauks Heiðars hafa fyrirliðinn Baldur Sigurðsson og vinstri bakvörðurinn Guðmundur Reynir Gunnarsson yfirgefið liðið auk þess sem Kjartan Henry Finnbogason var seldur á miðju tímabili.