Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hátt í 700 leita árlega til SÁÁ vegna kannabis

21.02.2018 - 12:29
Úr umfjöllun Kveiks um kannabis.
Mynd úr safni.  Mynd: Kveikur - RÚV
Hátt í sjö hundruð manns leita árlega til SÁÁ vegna kannabisfíknar, að sögn forstjóra Vogs. Um 80% yngstu skjólstæðinganna, þeir sem eru undir tvítugu, eru háð kannabisi.

Fjallað var um kannabisræktun í fréttaskýringaþættinum Kveik í sjónvarpinu í gær. Þar var meðal annars rætt við kannabisræktanda sem stundar stórfellda framleiðslu og kom fram í þættinum að innlend framleiðsla fullnægði eftirspurninni hér á landi. Samkvæmt upplýsingum Kveiks stunda um hundrað manns kannabisræktun í atvinnuskyni á höfuðborgarsvæðinu og því má gera ráð fyrir að neyslan sé töluverð.

„Við erum að fá hátt í 700 manns á ári sem að eru með það mikinn vanda af þessu að þeir koma hingað í meðferð vegna kannabisfíknar, segir Valgerður Á. Rúnarsdóttir forstjóri Vogs.

Hún segir þennan vanda mest áberandi hjá yngsta hópnum sem til þeirra leitar.

„Já það er meira áberandi í yngsta hópnum. Ef við skoðum til dæmis þessi sem eru yngri en 20 ára og koma hingað, 80% af þeim fá greiningu um kannabisfíkn eða jafnvel yfir það hlutfall. Og milli 20 og 30 ára þá er það 60-70%, þannig að það er býsna stór hluti af neyslu þeirra yngstu.“

Valgerður segir að ekki virðist erfitt að komast yfir þessi efni. Sá fjöldi sem til þeirra leitar vegna þessa vanda hafi haldist nánast óbreyttur frá árunum upp úr 1995, sem og hlutfallið í yngsta hópnum.

Fram kom hjá viðmælanda Kveiks að hann hafi byrjað á framleiðslunni eftir að nákominn ættingi veiktist af krabbameini, og að efnið gæti hjálpað slíkum sjúklingum og jafnvel stuðlað að lækningu. Valgerður segir að  áreiðanlega séu einhver góð áhrif, en skaðinn sé eflaust meiri. Alveg öruggt sé að ekki sé hægt að nota kannabisreyk sem lyf. Ekki sé hægt að stjórna virkninni og því ekki hægt að staðla skammtinn. Læknar geti ávísað töflum með kannabisi, en lítill áhugi virðist vera á að fá slíkt.

„Ef við hugsum um lýðheilsu, að einhverjum finnist hann njóta góðs af því, ef það á að auka aðgengi þá skapar það hættu fyrir aðra. Það er spurning hvort þú setur á oddinn; lýðheilsu eða samkennd með nokkrum einstaklingum,“ segir Valgerður Á. Rúnarsdóttir.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV