Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hátt í 700 fluttir með sjúkraflugi

05.01.2017 - 09:34
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Brýnt er að komast að því hvers vegna sjúkraflutningum með flugi hefur fjölgað jafn mikið og raun ber vitni síðastliðin tíu ár. Þetta kemur fram í ritstjórnargrein gjörgæslulæknis í Læknablaðinu. 464 hafi verið fluttir með sjúkraflugi 2006 en hátt í 700 í fyrra. Spurt er hvort minni sjúkrahús úti á landi mæti niðurskurði með því að senda sjúklinga til Reykjavíkur.

Björn Gunnarsson‚ barna- svæfinga- og gjörgæslulæknir, bendir á í grein sinni að þrátt fyrir þessa miklu fjölgun hafi hlutfall forgangsflutninga haldist í kringum 40%. Sjúkraflug með þyrlum sé ekki með í tölunum en miðað við nýlegar útvarpsumræður lendi þyrlur árlega 35-55 sinnum við Landspítalann og séu þá lendingaræfingar taldar með.

Björn segir mikilvægt að fá útskýringar á því hvers vegna sjúkraflutningum með flugi hefur fjölgað svona mikið. Ekki sé hægt að skýra það nema að hluta til með fjölgun ferðamanna. Björn veltir því fyrir sér hvort niðurskurður síðustu ára hafi skert þjónustu við bráðveika sjúklinga á minni sjúkrastofnunum á landsbyggðinni og hreinlega neytt þær til að halda kostnaði niðri með því að senda sjúklinga frá sér og til höfuðborgarinnar?

Einnig segir Björn að kanna þurfi hvort nota eigi oftar þyrlur í stað sjúkrabíla. Björn nefnir sem dæmi að nýleg rannsókn sýni að minnihluti sjúklinga með brátt hjartadrep hafi verið fluttur með þyrlu þó svo að brýnt sé að ekki líði meira 90 til 120 mínútur þangað til þannig veikt fólk komist í aðgerð. „Hugsanlega skýrist þessi litla notkun á þyrlum af of löngum viðbragðstíma og viðtekinni venju um að kalla aðeins til þyrlu þegar þörf er brýn, sem er teygjanlegt hugtak. Tölur um fjölda lendinga segja því lítið um raunverulega þörf eða skynsamlega notkun á þyrlum og verður því að taka þeim með fyrirvara. Kannski er kominn tími til breytinga, til dæmis að hafa bundna þyrluvakt og sérstaka sjúkraþyrlu á Suðurlandi, eins og hugmyndir eru uppi um!,“ skrifar Björn. 

Þá bendir hann ennfremur á að Ríkisendurskoðun hafi endurtekið hvatt velferðarráðuneytið til að vanda betur til útboða sjúkraflugs, móta framtíðarstefnu í sjúkraflutningum og taka ákvörðun um aðkomu Landhelgisgæslunnar að almennu sjúkraflugi.