Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hátt í 400 hríðskotabyssur í landinu

27.10.2014 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglan og Landhelgisgæslan eiga að minnsta kosti 370 vél- og hríðskotabyssur, samkvæmt þeim tölum sem fram hafa komið undanfarna viku. Tölur um fjölda þeirra vopna sem fengist hafa frá Norðmönnum fara síhækkandi.

DV greindi frá því síðasta þriðjudag að lögreglan hefði keypt 200 MP5-hríðskotabyssur. Lögreglan sagði sama dag að hríðskotabyssurnar væru 150. Fram kom að Landhelgisgæslan hefði haft milligöngu um að fá byssurnar en Gæslan sagðist ekki hafa heimildir til að ræða vopnaeign sína. Á fimmtudag upplýsti norski herinn að Landhelgisgæslan hefði fengið 250 MP5-hríðskotabyssur. Í kjölfarið staðfesti Gæslan það og sagði að 150 hefðu verið ætlaðar lögreglunni en 100 Gæslunni. 

Á laugardag bar fréttastofa undir Georg Lárusson, forstjóra Landhelgisgæslunnar, frétt í Verdens Gang um að Norðmenn  hefðu selt Gæslunni 60 hríðskotabyssur í fyrrasumar. Forstjórinn sagði að þetta hefðu raunar verið 10 byssur. Herinn segir að þær hafi verið vélbyssur, af gerðinni MG3, sem eru mun stærri vopn en hríðskotabyssurnar.

Í gær bar fréttastofa svo undir Georg klausu í fréttabréfi norska hersins frá því í fyrrahaust um að herinn ætlaði að gefa Gæslunni 50 MP5-hríðskotabyssur. Georg sagði að þessar byssur hefðu komið til landsins 2011 og eru byssurnar sem hafa komið frá Norðmönnum því orðnar alls 310, samkvæmt því sem fram er komið.

Við það bætist að samkvæmt skýrslu innanríkisráðuneytisins frá 2012 átti lögreglan þá 60 hríðskotabyssur og þegar það er lagt við byssurnar 310 sem hafa komið til landsins á undanförnum árum fást alls 370 vél- og hríðskotabyssur. Óvíst er hvort Landhelgisgælsan á fleiri.