Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hátt í 15.000 skjálftar á fjórum mánuðum

16.12.2014 - 20:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Jarðskjálftavirkni við Bárðarbungu minnkar hægt og hægt með hverri vikunni sem líður. Fjórir mánuðir eru í dag síðan hún hófst.

Bárðarbunga, ein stærsta eldstöð landsins, hefur sjaldan ratað í fréttir hin síðari ár, en það breyttist 16. ágúst. Þá var óvissustigi lýst yfir vegna jarðhræringa í Bárðabungu.

Brátt mældust skjálftar yfir fimm að stærð, sem hafði ekki gerst í Vatnajökli frá 1996. Sá stærsti, 5,7, reið yfir í lok ágúst, og í gær varð 75. skjálftinn yfir fimm.

Alls eru yfirfarnir skjálftar tæplega 15.000, en samanlögð stærð þeirra er á við einn skjálfta af stærðinni 6,6. Það hljómar hálflygilega að allir þessir skjálftar skuli rétt slaga upp í einn stóran Suðurlandsskjálfta, en þar blekkja margföldunaráhrif jarðskjálftakvarðans, því stærðin rúmlega þrjátíufaldast við hvert stig kvarðans.

Ímyndum okkur að til að framkalla jarðskjálfta af stærðinni 1 þurfi jafnmikla orku og til að brjóta eina spaghettílengju. Orkan sem þyrfti til að framkalla skjálfta af stærðinni tveir væri þá svipuð og fer í að brjóta 30 lengjur. Og þegar komið er upp í þrjá eru lengjurnar orðnar 900. 

Í raun eru kraftarnir auðvitað mun meiri. En landið hristist ekki bara, það gliðnar líka. Ísland er á skilum tveggja jarðskorpufleka sem fjarlægjast að meðaltali um 2 cm á ári.

„En svo gerist það alltaf öðru hvoru að það koma svona sprettir í þessa gliðnun. Og það er það sem við höfum verið að sjá núna og það er svona svipað því sem gerðist í Kröflueldum, þannig að nú getum við í rauninni sagt að það sé orðið lengra að fljúga á milli Hafnar í Hornafirði og Akureyrar", segir Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár á Veðurstofu Íslands.

Askja eldfjallsins hefur nú sigið um meira en 50 metra og vísindamenn segja að skjálftahrinan sé ein sú mesta sem mælst hefur í eldfjalli í heiminum. Og þetta, ásamt jarðeldunum, fjarar afar hægt út.

„Miðað við hvernig virknin hefur verið, hvernig það hefur hægt verið að draga bæði úr siginu og gosinu, þá myndi ég halda að þetta myndi standa yfir nokkra mánuði enn", segir Kristín.