Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hátt í 100 kíló af fíkniefnum með Norrænu

09.09.2015 - 13:27
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Tollverðir á Seyðisfirði fundu mikið af fíkniefnum í húsbíl sem kom með Norrænu til Seyðisfjarðar í gærmorgun. Samkvæmt heimildum fréttastofu var lagt hald á um 100 kíló og er hollenskt par, sem var á bílnum, í haldi lögreglu. Þau voru í morgun flutt til Reykjavíkur til yfirheyrslu.

Duftið er í mörgum pokum en greining á efnunum hefur ekki farið fram. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur varist allra frétta af málinu og vísar á lögregluna á Austurlandi sem hefur ekkert viljað tjá sig um málið.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er von á yfirlýsingu frá lögreglu á næstunni. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu fundust um 90 kg af hvítu efni í húsbíl sem parið var á. Bílinn höfðu þau tekið á leigu erlendis. Hann er enn á Seyðisfirði en parið mun vera komið til Reykjavíkur. Lögregla höfuðborgarsvæðisins verst allra fregna af málinu. Norræna kom til Seyðisfjarðar í gærmorgun en hún sigldi frá Hirtshals í Danmörku með viðkomu í Færeyjum.

Mbl.is segist hafa heimildir fyrir því að efnið sem hafi fundist sé hvítt og að þetta sé eitt stærsta fíkniefnamál sem komið hafi upp á Íslandi.

Vísir.is kveðst hafa heimildir fyrir því að fundist hafi um þrjátíu kíló af hvítu efni í húsbíl parsins.

Þetta er annað stóra fíkniefnamálið sem kemur upp á þessu ári. Um páskana voru hollenskar mæðgur stöðvaðar með tæplega 20 kíló af fíkniefnum. Stúlkan var ekki ákærð í málinu en hún kvaðst ekki hafa vitað af fíkniefnunum.

Ef fíkniefnin reynast vera 90 kíló er þetta langstæsta fíkniefnamál sem komið hefur upp hér á landi. Í svokölluðu Pólstjörnu-máli, sem kom upp fyrir átta árum,  voru sex menn dæmdir fyrir að flytja um fjörutíu kíló af fíkniefnum til landsins.

 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV