Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hatari óttast að ganga of langt

Mynd: Gísli Berg / RÚV

Hatari óttast að ganga of langt

14.05.2019 - 12:46

Höfundar

Eftir að hafa verið kölluð á fund með Jon Ola Sand framkvæmdastjóra Eurovision hefur Hatarahópurinn verið var um sig. Svo virðist sem stjórnendur keppninnar hafi lagt þeim línurnar og stytt í beislinu.

Stóri dagurinn er runninn upp, eða sá fyrri af tveimur ef allt gengur áfram samkvæmt áætlun hjá leðurklæddu prúðmennunum í Hatara. Hópurinn stígur á svið í Tel Aviv í undankeppni Eurovision klukkan 19 að íslenskum tíma. Dómararennsli fyrir undankeppnina var í gær. Þar horfðu dómarar frá keppnislöndunum á atriðin og gáfu þeim stig. Stig dómnefndanna vega helming á móti atkvæðum símakosningar sem er eftir keppnina í kvöld en strax að henni lokinni kemur í ljós hvort Íslendingar komast í úrslitin, í fyrsta sinn í fimm ár.

Hatari gagnrýndi hernámið og fékk áminningu

Mikið hefur gengið á síðan Hatari kom til Tel Aviv og það hefur vægast sagt gustað um hópinn. Gífurleg athygli hefur verið á bæði atriðinu og keppendunum meðal fjölmiðla um allan heim. Hópurinn hefur vakið athygli fyrir óvenjulegt atriði, athyglisverðan klæðaburð og einnig fyrir að dansa á línunni varðandi reglur keppninnar sem banna pólitík. Hatari hefur meðan á  dvölinni í Ísrael stendur leyft sér að viðra skoðanir sínar á hernámi Palestínu og gagnrýna stjórnvöld í Ísrael. Björn Malmquist ræddi við Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur, ritara FÁSES og sérfræðing um keppnina, um pólitíkina í keppninni.

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Laufey Helga Pálmadóttir er stödd í Tel Aviv á vegum FÁSES ásamt Ísaki Pálmasyni

„Nú hafa Hataramenn fundað með framkvæmdastjóra keppninnar Jon Ola Sand og þau virðast vera komin í styttri ól en áður. Tónninn hefur verið að breytast og þau eru hrædd um að ganga of langt og vilja feta réttu línuna,“ segir Laufey. „Þau hafa núna sagt á blaðamannafundum að þau muni fylgja reglum EBU og ekki vera með neinn beinan pólitískan áróður.“

Sigga og Grétar í stjórninni tóku ekki þátt í pólitíkinni árið 1990 þegar þau báðu um eitt lag enn


Sungið um fall Berlínarmúrsins 1990

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem pólitíkin dúkkar upp í sögu keppninnar. „Þetta hefur gerst í tilfellum eins og þegar keppnin er haldin og tekur inn í sig einhvers konar stjórnmálaástand líðandi stundar. Árið 1990 fjölluðu fjögur lög með einhverjum hætti um fall Berlínarmúrsins,“ segir Laufey. Árið 1990 fór Stjórnin út fyrir hönd Íslands með smellinn Eitt lag enn og tók því ekki þátt í Berlínarmúrs-þemanu, heldur sungu um tónlistina sem heillar þau og hæfa í hjartastað. „Þá tókum við bara þátt í partíinu,“ segir Laufey.

Lélegur orðaleikur Georgíu dæmdur úr leik

„Það hafa líka komið upp aðstæður þar sem hefur verið pólitískur áróður beint á sviðinu, til dæmis framlag Georgíu 2009.“ Það ár var framlaginu „We don't wanna put in“ meinað að taka þátt á þeim forsendum að hér væri um að ræða full augljósan orðaleik og gagnrýni á Vladimir Putin.

Loreen sem söng lagið Euphoria lét sig pólitíkina varða þegar hún kynnti sér mannréttindabrot í Aserbaísjan


Loreen og Salvador Sobral létu einnig finna fyrir sér

„Í þriðja lagi erum við með þessar aðstæður sem Hatari leggur mikið upp úr og er þessi pólitíski áróður utan sviðs,“ segir Laufey. „Við höfum séð það áður í Eurovision til dæmis hjá Loreen sem keppti fyrir hönd Svíþjóðar í Aserbaísjan með vinningslaginu Euphoria. Hún setti málefni fólks, sem hafði verið flutt af heimilum sínum þegar Kristalshöllin var byggð í Bakú, á oddinn. Hún beindi kastljósi fjölmiðla að aðstæðum þessa fólks.“ Laufey minnist þess einnig þegar Salvador Sobral, sem sigraði í keppninni fyrir hönd Portúgal árið 2017, setti málefni flóttafólks á oddinn. „Hann kom í peysu á blaðamannafund sem var merkt S.O.S. Refugees, og það var að sjálfsögðu til að varpa kastljósinu á umræðuna um flæði flóttamanna til Evrópu.“ Laufey segir þó að þetta sé í fyrsta sinn sem íslenskir keppendur dansa á þessari línu.

Björn Malmquist ræddi við Laufeyju í Tel Aviv en innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Opnunarhátíð Eurovision seinkaði vegna mótmæla

Popptónlist

Slegist um að ná myndum og viðtölum

Popptónlist

Hatrið hefur sigrað

Tónlist

„Fjarstæðukennt að vera í þessari keppni“