John Oliver nýtur mikilla vinsælda í Bandaríkjunum en hann tekur jafnan fyrir málefni líðandi stundar á nokkuð skondin hátt. Oliver fjallaði um Eurovision í síðasta þætti sínum og þar voru liðsmenn Hatara nokkuð áberandi.
Oliver benti til að mynda á að trommari Hatara, Einar Stefánsson, væri sonur sendiherra Íslands í Lundúnum og spilaði síðan nokkur eftirminnileg myndskeið af hljómsveitinni við mikla kátínu áhorfenda.
Hatari átti sviðið um helgina, ekki síst eftir að sveitin veifaði palestínska fánanum þegar stigin úr símakosningunni voru kunngjörð. Hugi Guðmundsson, tónskáld, gerði sér til að mynda lítið fyrir og útsetti lagið fyrir lírukassa. Hægt er að hlusta á lagið hér að neðan en það er Jóhann Gunnarsson sem leikur lagið en eins og fjallað var um í Landanum þá smíðar Jóhann lírukassann sjálfur.