Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Háskólinn á Akureyri hreppti lögreglunámið

23.08.2016 - 20:51
Merki háskólans á Akureyri.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, hefur ákveðið að ganga til samninga við Háskólann á Akureyri um kennslu-og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða. Fram kemur á vef ráðuneytisins að ráðherrann telji HA uppfylla mjög vel þær kröfur sem gerðar séu um nám og aðbúnað til lögreglumenntunar. Aðstæður við HA séu til þess fallnar að gera nemendum af landinu öllu kleift að leggja stund á lögreglunám. Þá skjóti þessi ákvörðun styrkari stoðum undir fjölbreytta starfsemi Háskólans á Akureyri.

Þrír skólar voru metnir hæfir til að taka við lögreglunáminu - HÍ, HR og HA. Háskólinn á Bifröst sóttist einnig eftir náminu en skólinn uppfyllti ekki hæfiskröfu um viðurkenningu til kennslu á sálfræði.

Lögregluskólinn verður lagður niður formlega frá og með 30. september sem og embætti þeirra og störf sem eru með ráðningarsamband við skólann. Síðustu nemendur skólans útskrifast í ágúst en alls voru 16 umsækjendur valdir til að hefja nám við grunnnámsdeild skólans í september í fyrra.

Frumvarp menntamálaráðherra gerir ráð fyrir að fjöldi nýnema verði fjörutíu þegar kennsla í lögreglufræðum hefst í haust. Þegar frumvarpinu var dreift í apríl á þessu ári kom fram að væntanlega yrði gerð tillaga um viðbótarfjárveitingu upp á 96 milljónir á fjáraukalögum þessa árs til að koma nýju lögreglunámi á fót ásamt því að gera upp fyrirsjáanlegan halla á rekstri Lögregluskólans þegar hann verður lagður niður. 

Þá var í frumvarpinu gert ráð fyrir að kostnaður við að koma náminu á háskólastig yrði 28 milljónir króna á þessu ári, 96 milljónir á næsta ári og að árlegur kostnaður eftir það yrði 134 milljónir þegar kennt verður á fyrsta og öðru ári námsins.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV