Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Háskólaprófessorar samþykkja verkfall

11.11.2014 - 11:54
Mynd með færslu
 Mynd:
80 prósent félagsmanna í Félagi prófessora við ríkisháskóla samþykktu að boða til verkfalls á miðnætti 1. desember til mánudagsins 15. desember hafi ekki tekist að leysa kjaradeilu þeirra við ríkið. Rúm 77 prósent félagsmanna tóku þátt í atkvæðagreiðslunni en tæp 20 prósent voru á móti.

Fram kemur í tilkynningu frá Félagi prófessora að samninganefnd þeirra og ríkisins muni á næstu dögum funda og í framhaldinu tekur stjórn félagsins afstöðu tilþess hvort af verkfalli verður. „Stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla vonast til að samningar náist án þess að komi til verkfalls,“ segir í tilkynningunni.

Félagsmenn eru prófessorar fastráðnir við íslenska ríkisháskóla; Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla - Háskólann á Hólum.  Auk þess er lektorum og dósentum, sem fastráðnir eru við framangreinda háskóla, heimil aðild að félaginu.

Í verkfallinu verður engum verkefnum skilað, og engar einkunnir gefnar fyrir próf, verkefni, ritgerðir eða áfanga sem félagsmenn eiga aðkomu að.