Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hásetahlutur 7,3 milljónir eftir mettúr

04.06.2015 - 12:08
Kleifaberg
Kleifaberg verður eini frystitogarinn sem Útgerðarfélag Reykjavíkur gerir út frá Reykjavík á næsta ári. Mynd: Brim
Frystitogari útgerðarfélagsins Brims kom í höfn í gær og setti Íslandsmet þegar hann landaði verðmætasta afla sem íslenskt skip hefur fengið í einum 40 daga túr. Ætla má að hver háseti fái 7,3 milljónir króna í sinn hlut eftir þessa einu ferð.

„Miðað við tímann, aflaverðmæti á einum mánuði, þá er þetta alveg klárlega Íslandsmet. Ég man ekki eftir neinu sem nálgast þetta,“ segir Guðmundur Jóhannesson, deildarstjóri í veiðieftirliti Fiskistofu en aflaverðmætið í þessum eina túr var um það bil 730 milljónir. Hann bætir því við að uppistaðan í aflanum sé þorskur.  Það sé einmitt ástæðan fyrir verðmæti aflans. „Þorskurinn er svo verðmætur.“

„Við erum ekki búin að reikna hásetahlutinn. Við komum bara í land í gær,“ segir Halldór Eyjólfsson, útgerðarstjóri Brims. Hann segir þó að venja sé að miða hásetahlutinn við eitt prósent. Því má ætla að hver háseti gangi frá borði 7,3 milljónum króna ríkari.

Leigja kvóta af Rússum
Veiðarnar fóru fram í Barentshafi í rússneskri lögsögu. Útgerðarfélagið Brim leigir kvótann af Rússum sökum þess að kvótinn, sem Brim fær úthlutað á Íslandi, endist fyrirtækinu ekki alla vertíðina. Frekar en að hafa skipin í höfn hluta af árinu reynir fyrirtækið að skapa ný tækifæri og veiða í erlendum lögsögum.

„Við gerðum þetta í fyrra og erum að gera það aftur í ár,“ segir Halldór Eyjólfsson. Hann segir að fyrirtækið fái í sjálfu sér ekki mikið upp úr þessum viðskiptum því dýrt sé að leigja kvótann af Rússum. „En við erum að skapa störf fyrir skipið og menn og fleira. Nýtum í raun tæki og tól skipsins. Auðvitað skilar þetta sköttum og gjöldum til samfélagsins,“ segir Halldór.

Siglingin yfir í rússnesku lögsöguna er löng og Halldór segir að meiri áhætta sé fólgin í slíkum túrum heldur en veiðum við íslenskar strendur. „Þetta eru erfiðar aðstæður að miklu leyti. Menn eru að veiða í 25-30 stiga frosti,“ segir Halldór en bætir því við að þeir séu sífellt að átta sig betur á aðstæðum í rússnesku lögsögunni og læra á miðin og göngur á fiskistofnum og fleira.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV