Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hart tekist á um samkeppnismálin í Kastljósi

Mynd: Rúv / Kastljós
„Ef eitthvað er þá þyrftu samkeppnisreglur og samkeppniseftirlit að vera beittari hér á þessum örmarkaði en á milljóna mörkuðum Evrópu,“ segir fyrrverandi stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins. Framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, segir að með frumvarpi um breytingar á samkeppnislögum sé verið að færa íslenska löggjöf nær löggjöf Norðurlandanna og Evrópu. Það hljóti að vera til bóta.

Breytingar á lögunum skerði úrræði eftirlitsins

Ráðherra samkeppnismála hefur kynnt frumvarp um breytingar á samkeppnislögum. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefur gagnrýnt frumvarpið harðlega og segir það skerða möguleika eftirlitsins til að grípa inn í starfsemi fyrirtækja til að tryggja virka samkeppni og skjóta málum til dómstóla.

Í Kastljósi kvöldsins kom fram að hægt er að sækja um undanþágu frá samkeppnislögum til Samkeppniseftirlitsins. Hins vegar, samkvæmt frumvarpinu, þurfa fyrirtæki ekki að fá samþykki eftirlitsins og fá sjálf að meta hvort þau uppfylli lögin. 

Eðlilegt að eftirlitsstofnanir þróist með tímanum

„Það er mjög mikið traust sem menn hafa á fyrirtækjum ef þeir halda að forsvarsmenn þeirra geti komið saman og samið um hvernig þeir vilja haga sínu starfi og samstarfi og borið það saman við einhvern tékklista til þess að athuga hvort þeir uppfylli samkeppnislögin,“ sagði Gylfi. Hann telji að núverandi fyrirkomulag sé bæði gagnsærra og vænlegra til árangurs. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, segir eðlilegt að eftirlitsstofnanir þróist með samfélaginu. „Mér finnst það vera kall og svar tímans að leiðbeinandi hlutverk eftirlitsstofnana verði ríkara og það verði lögð sú skylda á herðar eftirlitsstofnananna að veita fyrirtækjum leiðbeiningar um það með hvaða hætti þau geti farið að lögum sem heyra undir stofnunina.“

Meginreglur samkeppnisréttar verði áfram til staðar og fyrirtæki þurfi auðvitað áfram að hlíta þeim. „Það er enginn að tala um það að við sinnum eftirliti með okkur sjálfum. Menn þurfa að hlíta lögum og reglum eftir sem áður, og ef þeir gerast brotlegir við lög, getur Samkeppniseftirlitið að sjálfsögðu stigið inn,“ segir Halldór Benjamín. 

Skiptar skoðanir um löggjöfina

„Það sem verið er að gera er að færa íslenska samkeppnislöggjöf nær því sem er á Norðurlöndunum og í Evrópu. Enda hljótum við að vilja miða okkur við nágrannaríki okkar og reyna að hafa sambærilegt regluverk hér á samkeppnismarkaði og gengur og gerist á Norðurlöndunum og í Evrópu. Ég tel að það sé til bóta,“ segir hann. 

Gylfi segir hins vegar að íslensk samkeppnislög séu í grundvallaratriðum, og nánast í smáatriðum, byggð á evrópskum fyrirmyndum. Það þurfi því ekki að færa þau til samræmis evrópskri löggjöf. 

Eftirlit þurfi að vera beittara hér á landi

Verið sé að reyna að „draga tæki Samkeppniseftirlitsins eins langt niður og hægt er, en uppfylla þó lágmarkskröfur innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ef eitthvað er þá þyrftu samkeppnisreglur og samkeppniseftirlit að vera beittari hér á þessum örmarkaði en á milljóna mörkuðum Evrópu,“ segir Gylfi. „Þess vegna eru öll skref í aðra átt bara hreinlega vond.“

Hann hafi áhyggjur af frumvarpinu. Svo virðist sem verið sé að veikja Samkeppniseftirlitið talsvert. Hann telji að það muni koma niður á neytendum, smærri fyrirtækjum og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. 

Fleiri reglur skili ekki endilega virkari samkeppni

Halldór Benjamín segir hins vegar að neytendur beri á endanum kostnaðinn af íþyngjandi eftirliti. „Á undanförnum árum hefur verið mikill vöxtur í þessum eftirlitsiðnaði á íslandi ég geld varhug við það að meiri og viðameiri reglur skili endilega virkari samkeppni og betra eftirliti.“

Gylfi sagði að rökstuðningur Halldórs væri sá sami og var færður fyrir því að veikja ætti Fjármálaeftirlitið fyrir hrun, „og við höfum bitra reynslu af því.“ Halldór var ósammála því og sagði það þunna og einfalda samlíkingu. Fleiri þættir hefðu verið þar að verki.