Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hart sótt að borgarstjóra í oddvitaþætti

Mynd: Skjáskot / RÚV
Hart var sótt að Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í kvöld í umræðu um húsnæðismál í fyrri umræðuþætti oddvita framboðanna í borginni. 

Dagur byrjaði umræðuna um húsnæðismál á því að tala um að aldrei hafi fleiri íbúðir farið í byggingu í Reykjavík og nú. „Við erum á miðju stærsta uppbyggingaskeiði í sögu borgarinnar.“ Samfylkingin hafi verið eini flokkurinn sem hafi verið að tala um húsnæðismarkaðinn í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Reykjavík hafi verið leiðandi; í Mosfellsbæ og Garðabæ séu nú að byggjast hverfi sem voru ekkert nema götur og ljósastaurar fyrir tíu árum. Ekkert sveitarfélag komist í hálfkvisti við lóðaúthlutanir Reykjavíkurborgar því hún hafi úthlutað fleiri lóðum en öll hin sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins til samans. 

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, gagnrýndi borgarstjóra fyrir að hafa ekki tryggt meiri uppbyggingu í borginni þrátt fyrir að hafa haft átta ár til þess. Kosningaloforð Samfylkingarinnar séu þau sömu í húsnæðismálum og þau voru fyrir fjórum árum. „Á síðustu átta árum hafa ekki verið byggðar jafn fáar íbúðir í Reykjavík síðan 1929.“ 

Dagur gagnrýndi þá Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn fyrir stefnu í húsnæðismálum fyrir að leggja niður verkamannabústaðakerfið, þar hafi verið ellefu þúsund íbúðir, þar af 6.000 fyrir fólk með lægri tekjur. 

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði með ólíkindum að heyra borgarstjórann barma sér yfir ríkinu og öðrum flokkum. „Borgarstjórinn er með höfuðborgina, hann er með öll tækin til þess að fara í þessi mál, hann hefur haft átta ár. Þessi borg byggði Breiðholtið, Árbæinn, Grafarvoginn og öll þessi hverfi af krafti komin með félagslegt kerfi og leiddi þá þróun.“ Íbúðaverð hafi hækkað um 50 prósent á fjórum árum í höfuðborginni og leiguverð sömuleiðis. Þessar 3000 íbúðir sem hafi verið boðaðar fyrir fjórum árum séu enn í pípunum. „Mikið óskaplega eru þetta langar pípur.“ Eyþór sagði aðspurður að Sjálfstæðismenn væru hlynntir þéttingu byggðar en það sé ekki nóg því það sé svo dýrt. Borgin hafi farið of seint af stað í að útvega lóðir til þéttingar byggðar og Úlfarsárdalur hafi verið minnkaður af núverandi meirihluta. „Það er gert allt of lítið, of seint á of dýrum reitum og byggt á bankareitum.“ 

Líf Magneudóttir, oddviti VG, sagði að það taki tíma að vinda ofan af eignamarkaði og búa til heilbrigðan leigumarkað. Það þurfi að endurhugsa hverfin með tilliti til sjálfbærni hverfa og þjónustu þannig að ekki þurfi að reiða sig á einkabílinn. Það sé sömuleiðis umhverfismál. Þá sagði hún að félagslegu húsnæði hafi fjölgað gríðarlega eftir að Vinstri græn fóru í meirihlutasamstarf í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili. Reykjavík hugsi um þarfir þeirra sem verst hafi það. 

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, sagði að leita verði allra leiða til að takast á við húsnæðisvandann. EKki vanti lóðir í borginni; lóðir fyrir 4000 íbúðir séu tilbúnar og lóðir fyrir 19 þúsund íbúðir í undirbúningi. „Þegar verið er að segja að lóðaframboðið sé vandamálið þá er verið að slá ryki í augu kjósenda.“
Dóra segir að vandinn sé ekki sprottinn á örfáum árum því húsnæðisverðið sé að hækka alls staðar. „Við erum komin með svakalega mikið af ferðamönnum í borginni, okkur hefur fjölgað um sjö prósent í borginni á tíu árum. Þannig að þeir sem láta eins og það sé hægt að smella fingrum og leysa þetta mál eru ekki heiðarlegir með það.“ Það verði að þétta byggð tila ð halda uppi góðum almenningssamgöngum. 

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, segir það skyldu borgarinnar að grípa inn í. Þeir sem eru í húsnæðiskreppu séu látnir bíða og þeir upplifi valdaleysi. Áform borgarinnar hafi komið of seint og séu of lítil. Borgin hafi hingað til verið að þjónusta húsnæðisfélög og braskara. Ríka fólkið hafi ekki áhuga á því að byggja fyrir þá sem eru í húsnæðisvanda. 

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, sagði að nóg hafi verið talað um húsnæðismálin í aðdraganda kosninganna og vildi nota tækifærið til að kynna helstu áherslumál flokksins sem vilji vinna gegn fátækt. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, gagnrýndi borgina fyrir of seinlegt kerfi. Það þyrfti að fara í gegnum sautján stjórnsýsluskref en í Kaupmannahöfn væru skrefin sjö. Þá talaði hún um auða verslunarkjarna í hverfum borgarinnar þar sem hægt væri að koma aftur rekstri af stað. Viðreisn sé með tilbúnar tillögur sem hægt væri að leggja fram á morgun um hvernig hægt væri að byggja upp atvinnu í þessum hverfum. 

Hægt er að horfa á oddvitana ræða húsnæðismálin hér að ofan. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV