Hársbreidd frá Íslandsmetinu í 10 km hlaupi

Mynd með færslu
 Mynd: FRÍ

Hársbreidd frá Íslandsmetinu í 10 km hlaupi

19.11.2019 - 09:20
Hlauparinn Trausti Þór Þorsteins úr Ármanni var aðeins einni sekúndu frá því að slá Íslandsmetið í 10 km götuhlaupi þegar hann hljóp vegalengdina á 29:50 mínútum í Buffalo í Bandaríkjunum á dögunum. Frá þessu segir í tilkynningu frá Frjálsíþróttasambandi Íslands.

Íslandsmetið Hlynur Andrésson og setti hann það í mars á þessu ári þegar hann hljóp á 29:49 mín. Hlynur varð þá fyrstur Íslendinga til að hlaupa 10 km götuhlaup á undir 30 mínútum. Trausti Þór er því aðeins annar Íslendingurinn sem gerir það.

Trausti Þór stundar háskólanám í Bandaríkjunum við Wagner háskólann í New York. Þar er hann einnig hluti af hlaupasveit skólans. Fyrr á árinu varð hann svæðismeistari í 1500 m hlaupi í norð-austur Bandaríkjunum en það svæði telur hátt í 300 skóla.