Harpa, Bíó paradís og Borgarbókasafn loka tímabundið

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV

Harpa, Bíó paradís og Borgarbókasafn loka tímabundið

23.03.2020 - 14:45

Höfundar

Menningar- og samkomuhús loka nú tímabundið til að bregðast við hertu samkomubanni sem tekur gildi þriðjudaginn 24. mars. Harpa, Borgarbókasafn og Bíó paradís hafa tilkynnt að skellt verði í lás um óákveðinn tíma.

Í ljósi herts samkomubanns sem tekur gildi á miðnætti hafa tónlistarhúsið Harpa, Borgarbókasafn og Bíó paradís ákveðið að loka dyrum sínum tímabundið.

Í Hörpu verða engir opnir viðburðir næstu vikur. Áfram verði þó boðið upp á lifandi streymi frá Eldborg klukkan 11 flesta daga vikunnar, sem hægt er að horfa og hlusta á á menningarvef RÚV, á Facebook- og Youtube-síðu Hörpu.

Borgarbókasafnið reiknar með að opna dyr safnanna aftur og gangsetja bókabílinn þriðjudaginn 14. apríl. Í tilkynningu safnsins segir að skiladagur allra bókasafnsgagna, sem á að skila á þessu tímabili, verði færður til þriðjudags 14. apríl og bækur og önnur bókasafnsgögn safni ekki dagsektum vegna vanskila á þessu tímabili. Um leið er minnt á að Rafbókasafnið er alltaf opið, og aðgengilegt öllum sem eiga bókasafnskort í gildi. Frekari upplýsingar um starfsemi safnanna á meðan lokun stendur birtast á vef Borgarbókasafns.

Allar fyrirhugaðar sýningar og viðburðir í Bíó paradís falla niður frá og með 24. mars. Endurgreiðsluferli er nú þegar hafið í gegnum Tix.is fyrir aflýstar sýningar.