Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Harma að málið þurfi að fara fyrir dóm

28.03.2019 - 16:21
epa05481679 Jonsi Birgisson performs during the concert of the Icelandic post-rock band Sigur Ros at the 24th Sziget Festival, in Budapest, Hungary, 13 August 2016. The festival, which runs from 10 to 17 August, is one of the biggest cultural events of
 Mynd: EPA
Liðsmenn hljómsveitarinnar Sigur Rós harma að skattamál þeirra þurfi að fara fyrir dóm og vona að málsástæður þeirra skýrist, eftir því sem segir í yfirlýsingu frá hljómsveitinni.

„Þeir hafi ávallt haft fullan ásetning til að standa í réttum skilum við skattyfirvöld og stóðu í þeirri trú að það hefði verið gert,“ segir í yfirlýsingunni.

Fjórir liðsmenn Sigur Rósar, þeir Georg Holm, Kjartan Sveinsson, Orri Páll Dýrason og Jón Þór Birgisson, hafa verið ákærðir fyrir skattsvik. Þeim er gert að sök að hafa ekki talið fram tekjur eða arðgreiðslur sínar.

„Hljómsveitarmeðlimir eru tónlistarmenn og ekki sérfróðir í bókhaldi og alþjóðlegum viðskiptum – hvað þá í framtalsgerð og skattskilum,“ er haft eftir Bjarnfreði Ólafssyni, lögmanni á LOGOS. „Þess vegna réðu þeir viðurkennda sérfræðinga til að annast bókhald og öll samskipti við íslensk skattyfirvöld. En í ljós hefur komið að röngum framtölum var skilað til ríkisskattstjóra og/eða þeim skilað alltof seint.“

Bjarnfreður segir að hljómsveitarmeðlimir hafi talið að þessi mál væru í lagi enda væru þau í höndum fagmanna. „Það verður núna verkefni Héraðssaksóknara að færa sönnur fyrir því að hljómsveitarmeðlimir hafi sjálfir gerst sekir um stórfellda vanrækslu á framtalsskyldu sinni. Í ljósi málsatvika fæ ég ekki séð hvernig það verður hægt og þess vegna veldur það vonbrigðum að embætti Héraðssaksóknara hafi tekið ákvörðun um ákærur á hendur þeim.“