
Harðasta álagsprófið um fjármálastöðugleika
Riti bankans um fjármálastöðugleika var fylgt úr hlaði í fundarsal bankans, Sölvhóli fyrir hádegi. Á vef bankans er ritið ásamt kynningunni í morgun.
„Óvissa hefur aukist og áhætta og kannski að hvetja heimilin og fyrirtækin og bankana til þess að stíga svolítið varlega til jarðar á næstunni til þess að vera í stand búin að takast á við áföll ef að þessi óvissa snýst hratt við.“
Af hverju er áhættan meiri?
„Áhætta hefur aukist í starfsemi tengdri ferðaþjónustu frá því til dæmis í vor vegna þess að það hefur dregið úr komu ferðamanna til landsins. Olíuverð hefur einnig hækkað mikið og það er mikil samkeppni í flugrekstri þannig að það hefur reynt töluvert á þanþol flugfélagana og jafnvel komið í ljós rekstrarerfiðleikar þar,“ segir Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri.
Þá er áhætta tengd atvinnuhúsnæði meiri en í vor, verð á því hafi áfram hækkað hratt og er orðið mjög hátt í sögulegu samhengi, segir hún. Þannig að ef yrðu áföll eða samdráttur og verð á atvinnuhúsnæði lækkaði hratt þá gætu bankarnir tapað útlánum. Þá segir Rannveig athyglisvert að verðhækkun á íbúðarhúsnæði hafi stöðvast miðað við aðrar stærðir eins og laun.
„Skuldavöxtur heimilanna er enn sem komið er ekki mikill sérstaklega í ljósi þess hve veðrými hefur aukist með hækkandi húsnæðisverði.“
Það gæti hins vegar breyst í hröðum samdrætti svo Rannveig segir að Seðlabankinn hvetji heimilin til þess að nýta ekki aukið veðrými á íbúðarhúsnæði til að auka við skuldir. Á fundinum í morgun kynnti Harpa Jónsdóttir framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum álagspróf bankans sem meðal annars er ætlað að meta styrk kerfislega mikilvægu bankanna þriggja það er Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka ef áföll yrðu:
„Þetta er harðasta próf sem við höfum keyrt hingað til en er í takt við það sem við erum að sjá erlendis. Það eru allir að keyra mjög hörð próf núna því það er svo mikil óvissa og órói.“