Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Harðari tónn í Icesave deilunni

28.07.2010 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúi í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir að Íslendingar hafi ekki staðið rétt að innleiðingu á tilskipun um innstæðutryggingasjóð og því eigi þeir að greiða Icesave-skuld. Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor segir að með þessu kveði við harðari tón í deilunni.

Ástæða þess að Íslendingar eiga að greiða Icesave-skuldina er einkum sú að Evróputilskipun um innstæðutryggingasjóð var ekki rétt innleidd. Þetta kemur fram í svarbréfi fulltrúa í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til norsks blaðamanns. Þórólfur segir að með þessu sé Icesave-reikningurinn sendur íslenska ríkinu með ákveðnari hætti en áður.

Norski fréttavefurinn ABC Nyheter fjallar í dag um Icesave-málið og er greinin byggð á bréflegum svörum Michels Barniers. Barnier situr í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og hefur yfirumsjón með innri markaði þess. Í bréfi sínu lýsir Barnier áformum um að efla innstæðutryggingasjóði.

Barnier segir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sé sammála lagalegri greiningu ESA um að Íslendingar eigi að borga Icesave. Bæði hafi löggjöf um innstæðutryggingasjóð verið vitlaust innleidd þannig að sjóðurinn hafi ekki verið í samræmi við stærð bankakerfisins og áhættuna. Auk þess hafi neyðarlögin mismunað innstæðueigendum. Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir að með þessi kveði við harðari tón í deilunni.