Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hanson: Nauðsynlegt að afhjúpa hræsni

05.06.2016 - 19:57
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Nils Hanson, ritstjóri sænska fréttaskýringaþáttarins Uppdrag granskning segir að nauðsynlegt hafi verið að fá Sigmund Davíð Gunnlaugsson í viðtal á fölskum forsendum til að afhjúpa hræsni hans. Hann segir aðferðirnar vera umdeildar en taldar nauðsynlegar til að afhjúpa þáverandi forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, gagnrýndi fréttamenn Reykjavik media og Uppdrag granskning harðlega á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gær, vegna viðtals sem tekið var við hann um aflandsfélagið Wintris. Hann sagði óheiðarlegt hvernig þeir hefðu platað sig í viðtal og unnið úr því í þætti Reykjavík media og Kastljóss sem sýndur var á RÚV 3. apríl. „Það var einfaldlega búið að skrifa handritið allt fyrirfram, æfa leikritið og þannig skyldi það standa því þetta snerist aldrei um að finna sannleikann. Þetta snerist um að koma höggi á Framsóknarflokkinn í gegnum mig. “

Almenningur eigi kröfu á upplýsingum

Nils Hanson segir þetta fjarri öllum sanni. Almenningur hafi kröfu og áhuga á því að fá þessar upplýsingar, sérstaklega þar sem Sigmundur Davíð hafði áður gagnrýnt þá sem fluttu fjármuni sína í aflandsfélög í skattaskjólum. „Það var jú hræsni af hans hálfu sem nauðsynlegt var að afhjúpa og sýna.“

Hanson segir að birting Panamaskjalanna snúist langt í frá bara um Ísland, Sigmund Davíð og Framsóknarflokkinn. „Nei, við erum hluti, mikilvægur hluti eins og kom í ljós, af sameinuðu átaki blaðamanna um allan heim. Við höfum unnið saman að því að afhjúpa þessa gerð myrkraverka.“

Eina raunhæfa leiðin til að fá sannleikann fram

Hanson segir að það sé alveg rétt að aðferðin sem beitt var í viðtalinu við Sigmund Davíð sé umdeild og óvenjuleg. Þetta hafi þó verið talin eina raunhæfa leiðin til að fá sannleikann fram. Viðtalið leiði líka annað í ljós sem sé ekki síður mikilvægt: „Viðbrögð hans við spurningum okkar staðfestu greinilega að hann hafði haldið þessum upplýsingum leyndum.“

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, þvertók í hádegisfréttum fyrir að hann hefði reynt að koma í veg fyrir birtingu viðtalsins þegar hann hringdi í Hanson sama dag og viðtalið var tekið.

„Tilgangur símtalsins var að koma í veg fyrir að við sendum út þann hluta viðtalsins þar sem við komum forsætisráðherra að óvörum með spurningum um Panamaskjölin,“ segir Hanson um símtalið. „Hann var í miklu uppnámi þegar hann hringdi og sagði að framganga okkar hefði verið óviðeigandi og siðlaus og að hann hefði aldrei upplifað önnur eins vinnubrögð.“