Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hanna brú sem þola á hamfaraflóð í Jökulsá

01.02.2016 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Endurhanna þurfti nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum í kjölfar eldgossins í Holuhrauni. Brú sem þola á hamfaraflóð í Jökulsá verður byggð yfir 15 metra djúpt gljúfur skammt norðan núverandi brúar.

Búið var að hanna nýja brú yfir Jöklulsá á hringveginum sunnan við Grímsstaði og áformað að hefja þar framkvæmdir vorið 2015. Eldsumbrotin í Bárðarbungu gerbreyttu öllum þessum áætlunum. 

Mun öflugri brú nauðsynleg
Ljóst var að hanna þyrfti mun öflugri brú til að standast hamfaraflóð sem fylgja eldgosi undir jökli. Guðmundur Heiðreksson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni segir þar hafa verið skoðuð flóð sem voru frá 5000 upp í 100.000 rúmmetra á sekúndu.

Ný brú kostar um tvo milljarða 
Í stað brúar sunnan við núverandi brú, efri leið, verður farin neðri leið og byggð brú norðar. Svokölluð stagbrú yfir 10-15 metra djúpt gljúfur og verður heildarlengdin rúmir 200 metrar. Kostnaður er áætlaður um tveir milljarðar króna. „Miðað við þær forsendur sem eru núna um flóð, þá er brú á neðri leiðinni og brú á efri leiðinni álíka dýrar. Munurinn er að brú á neðri leiðinni er mun öruggari og stendur af sér mun stærra flóð heldur en brú á efri leiðinni,“ segir Guðmundur.

Mikið vatn færi fram hjá búnni
Þessi staðsetning brúarinnar veldur því að vatn úr hamfaraflóði færi ekki allt undir nýju brúna. Um 30% af vatninu færi undir brúna, en um 70% í gamlan farveg Jökulsár. 

Tekur tvö ár að hann nýja brú
Í lok síðasta árs var ákveðið að fara þessa leið og Guðmundur segir um tveggja ára ferli framundan við að hanna nýja brú og undirbúa til útboðs. “En við verðum svo að sjá til bara, þegar samgönguáætlun verður lögð fram í þinginu, hvenær þetta verður á dagskrá.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV