Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hanna Birna snýr aftur á þing eftir viku

20.04.2015 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, ætlar að taka sæti aftur á þingi þann 27. apríl. Þetta staðfestir hún í samtali við fréttastofu. Hanna Birna sagði af sér sem ráðherra þann 21. nóvember og ætlaði upphaflega að taka sæti á þingi þann 20. janúar.

Fréttastofa greindi frá því í byrjun janúar að hún hefði ákveðið að taka sér lengra frí frá þingstörfum og ætlaði þá að snúa aftur í mars.

Henni hafði þá verið ráðlagt, meðal annars af læknum, að taka sér lengra frí frá störfum. Þennan sama dag svaraði ráðherrann fyrrverandi umboðsmanni Alþingis í tengslum við lekamálið svokallaða.

Þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd óskaði eftir því við Hönnu Birnu í mars að hún mætti á fund nefndarinnar til að ræða umrætt lekamál sagðist þingmaðurinn ekki ætla að mæta. Í svarbréfi hennar kom fram að hún ætlaði að setjast aftur á þing eftir miðjan apríl.

Hanna Birna sagði af sér sem innanríkisráðherra í nóvember eftir að aðstoðamaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að leka trúnaðargögnum til fjölmiðla.  Hún hefur ítrekað haldið því fram að hún hafi ekki vitað af þessum leka.

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV