Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hanna Birna segir lögin neyðarúrræði

14.05.2014 - 18:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mælir fyrir lagafrumvarpi vegna verkfallsaðgerða flugmanna að loknum eldhúsdagsumræðum í kvöld. Hún segir lögin algjört neyðarúrræði. Flugmenn höfðu boðað þriðju vinnustöðvunina á föstudag.

Ríkisstjórnin samþykkti í dag að leggja fram lagafrumvarp sem stöðvar verkfallsaðgerðir flugmanna eftir að upp úr slitnaði í kjaraviðræðum við Icelandair. Flugmenn höfðu boðað vinnustöðvun á föstudag.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra lagði frumvarpið fyrir forseta Alþingis eftir að ríkisstjórnarfundi lauk og fór yfir málið með fulltrúum stjórnarandstöðunnar.

Hún mælir fyrir frumvarpinu að loknum eldhúsdagsumræðum í kvöld svo málið komist til nefndar og þingið geti tekið afstöðu til þess. Hún segir lögin algjört neyðarúrræði. „Auðvitað erum við alltaf að vonast til þess, og við höfum sagt það allan tímann, að á meðan menn eru að ræða saman þá erum við ekki að blanda okkur í það. En þegar búið er að slíta viðræðum og engin lausn í sjónmáli verðum við, því miður, að axla þessa ábyrgð.“

Búist er við að frumvarpið verði að lögum í síðasta lagi fyrir hádegi á morgun. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, sagði í útvarpsfréttum RÚV í dag að lögin væru engin óskastaða fyrir félagið. En ljóst sé er að Icelandair hafi orðið fyrir miklu tjóni vegna vinnustöðvana flugmanna til þessa.  Flugmenn Icelandair hafa lagt niður vinnu í tvígang í tólf klukkutíma.

Næsta vinnustöðvun flugmanna átti að verða á föstudag. Ekki náðist í forsvarsmenn Félags íslenskra atvinnuflugmanna í dag.