Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hanna Birna segir af sér í dag

21.11.2014 - 13:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Hanna Birna Kristjánsdóttir ætlar að segja af sér sem innanríkisráðherra í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu ætlar hún að taka sér frí fá stjórnmálum fram að áramótum og snúa þá aftur á þing. Ekki liggur fyrir hver tekur við embætti innanríkisráðherra.

Hanna Birna hefur legið undir miklum þrýstingi eftir að Lekamálið kom upp, fyrir ári síðan - ekki síst eftir að fyrrverandi aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í síðustu viku fyrir að leka trúnaðargögnum um hælisleitendur úr innanríkisráðuneytinu í fjölmiðla. 

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lýsti yfir eindregnum stuðningi við Hönnu Birnu í kjölfar dómsins og þá um kvöldið sagðist hún ætla að klára kjörtímabilið í stjórnmálum.  Samkvæmt heimildum fréttastofu tilkynnir hún þingflokki Sjálfstæðisflokksins afsögn sína í dag.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst ætlar hún þó að halda áfram sem varaformaður flokksins. 

[email protected] 

Uppfært: Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra kom í innanríkisráðuneytið um klukkan tvö í dag. Fjöldi fjölmiðla er á staðnum og bíður tíðinda.