Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Hann var næstur, það var sorglegt“ 

27.01.2019 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd:
„Ég hugsaði auðvitað að hann gæti orðið næstur. Að það gæti verið... og hann var næstur, það var sorglegt. En einhver er næstur, það er alltaf einhver næstur,“ segir Guðrún Hauksdóttir Schmidt, móðir Þorbjarnar Hauks Liljarssonar, sem lést í desember síðastliðnum.

Guðrún, eða Gurra eins og hún er jafnan kölluð, sagði sögu Þorbjarnar í þættinum Málið er á Rás 1 og hvernig er að horfa á eftir syni sínum verða að útigangsmanni. 

Síðasti dagurinn saman dýrmætur 
Þorbjörn hafði í mörg ár glímt við fíkn og síðustu árin var hann heimilislaus. Hann tilheyrði hópi utangarðsfólks en aldrei hafa fleiri tilheyrt þeim hópi en nú eða um 350 einstaklingar. Gurra er búsett í Danmörku en 10 dögum áður en Þorbjörn lést hitti hún hann í Reykjavík og átti með honum góðan dag. Meðal annars sýndi hann henni aðstæður utangarðsfólks í borginni og hvar hann hafði sofið á bekkjum hér og þar þegar hann fékk hvergi inni.

„Við höfðum hist og átt þennan góða dag saman, sem gefur mér rosalega mikið. Ég veit ekki hvernig ég hefði orðið ef ég hefði ekki átt þennan tíma með honum. Söknuðurinn er náttúrulega gríðarlega mikill og sorgin en ég held að ég hefði aldrei náð mér, ég er svo oft búin að hugsa þetta. Ef ég hefði ekki átt þennan tíma með honum,“ segir Gurra. Hún segir mikinn kærleik hafa ríkt á milli þeirra og þau talað um allt milli himins og jarðar.

Veggur í minningu Þorbjarnar
Þessi dagur opnaði augu Gurru fyrir aðstæðum utangarðsfólks og hóf hún að vekja athygli á því. Eftir að Þorbjörn lést hefur hún ásamt Guðnýju Pálsdóttur látið setja upp vegg við Lækjargötu í minningu Þorbjarnar. Á veggnum eru snagar og þar getur fólk skilið eftir hlýjar flíkur handa utangarðsfólki og þeir sem þurfa á að halda geta sótt sér flíkur þaðan. Gurra vonast til þess að fá hjálp borgaryfirvalda við að fá fastan samastað fyrir vegginn þannig hann verði kærleiksríkt samstarfsverkefni. 

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér eða hlaða honum niður á Hlaðvarpinu, Itunes eða öðrum efnisveitum. 

 

 

 

 

viktoriah's picture
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður