Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Handtökur vegna HM í Katar

18.06.2019 - 19:20
Mynd: EPA-EFE / EPA
Michel Platini, fyrrverandi forseti Knattspyrnusambands Evrópu var handtekinn í París í dag. Handtakan tengist rannsókn franskra yfirvalda á meintri spillingu við þá ákvörðun að halda heimsmeistaramót karla í knattspyrnu í Katar árið 2022.

Michel Platini átti sjálfur glæstum knattspyrnuferli að fagna á árum áður, vann til að mynda gullknöttinn þrjú ár í röð frá 1983 til '85.  

Síðari ár hefur nafn hans oftar verið nefnt í tengslum við rannsóknir á ýmsum spillingarmálum innan knattspyrnuhreyfingarinnar. 

Hann var forseti evrópska knattspyrnusambandsins UEFA frá 2007 til 2015 en hætti vegna hneykslismála. Hann afplánar enn fjögurra ára dóm um bann við afskiptum af knattspyrnu. 

Handtakan í dag snýst hins vegar þá ákvörðun um að halda heimsmeistaramót karla í knattspyrnu í Katar, eins og sjá má í eldri fréttum á meðfylgjandi myndskeiði. 

Platini var einn þeirra sem greiddu Katar atkvæði sitt, sem þáverandi forseti UEFA. Rannsókn franskra yfirvalda hófst árið 2016 vegna gruns um að spilling og samsæri hefðu haft áhrif á ákvörðun margra þeirra sem völdu Katar. 

Auk Platinis var fyrrverandi ráðgjafi Nicolas Sarkozy, þáverandi forseta Frakklands, handtekinn. Platini var yfirheyrður í dag á lögreglustöðinni í Nanterre í vesturhluta Parísar. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV