Handteknir vegna farþegaþotunnar sem skotin var niður

14.01.2020 - 11:42
Erlent · Íran
CORRECTS YEAR - Debris is seen from a plane crash on the outskirts of Tehran, Iran, Wednesday, Jan. 8, 2020. A Ukrainian airplane carrying at least 170 people crashed on Wednesday shortly after takeoff from Tehran’s main airport, killing all onboard, state TV reported. (AP Photos/Mohammad Nasiri)
 Mynd: AP
Nokkrir hafa verið handteknir af yfirvöldum í Íran vegna úkraínsku farþegaþotunnar sem hrapaði í útjaðri Teheran í síðustu viku með 176 manns innanborðs. Íransher viðurkenndi um helgina að hafa skotið niður vélina fyrir mistök.

Gholamhossein Esmaili, talsmaður ríkisstjórnarinnar, sagði við blaðamenn í morgun að rannsókn á slysinu gengi samkvæmt áætlun en tjáði sig ekki um hversu margir hefðu verið handteknir grunaðir um að eiga aðild að því að skjóta niður farþegaþotuna. Þá sagði Esmaili að rannsakað yrði sérstaklega að hve miklu leyti rekja mætti slysið til stríðsæsinga Bandaríkjamanna. 

Forseti Íran, Hassan Rouhani, ávarpaði einnig fundinn. Hann greindi frá því að sérstakur dómstóll yrði skipaður með reyndum dómara og tugum sérfræðinga. Ljóst væri að mun fleiri bæru ábyrgð á ódæðinu en sá sem skaut flugvélina niður.

Fjöldi fólks hefur síðustu daga mótmælt stjórnvöldum í Íran og sakað æðstu ráðamenn landsins um lygar og blekkingar. Lögreglan hefur jafnharðan leyst mótmælin upp en um þrjátíu hafa verið handteknir í þeim. Þar á meðal breski sendiherrann í Teheran. Hann var látinn laus skömmu síðar en handtaka hans vakti hörð viðbrögð.