Handtekinn á vettvangi brunans

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Einn var handtekinn á vettvangi þegar sumarhús brann til kaldra kola í landi Mýrarkots í gær. Hann var í svo annarlegu ástandi að ekki var hægt að taka skýrslu af honum.

Tilkynning barst um eldsvoðann klukkan 20:41 í gærkvöldi. Þegar slökkvilið bar að garði var sumarhúsið alelda og sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, við fréttastofu í morgun að ekkert hafi verið hægt að gera til að bjarga því. Hins vegar tókst að koma í veg fyrir að eldurinn bærist í tvö minni hús sem eru á lóðinni en eldur komst í nærliggjandi gróður.

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins. Samkvæmt upplýsingum þaðan hefur einn verið handtekinn vegna málsins. Sá var handtekinn á vettvangi og var hann í annarlegu ástandi. Hann er enn í haldi lögreglu og verður hann yfirheyrður síðar í dag. Viðkomandi er sagður tengdur sumarhúsinu en ekki fékkst uppgefið hvort hann sé eigandi þess.

Eldsupptök eru ókunn en íkveikja er ekki útilokuð. Slökkvistarf gekk vel og var aðgerðum lokið um miðnætti.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi