Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Handtaka á Gleðigöngunni tekin til skoðunar

22.08.2019 - 22:26
Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar segir lögregluna þurfa að vera meðvitaða um einkarétt sinn til valdbeitingar. Lögreglan hefur sætt gagnrýni vegna vinnubragða á Hinsegin dögum og Secret Solstice. 

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri sat fyrir svörum á fundi mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar í dag.  Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður ráðsins og oddviti Pírata, óskaði eftir fundinum. 

„Það eru nokkur mál sem hafa komið upp undanfarið sem hafa vakið upp spurningar um aðgerðir lögreglu og það er mjög mikilvægt að gagnsæi ríki um störf lögreglu til þess að traust sé til staðar í garð lögreglu, “ segir Dóra. 

Dóra Björt hættir sem forseti borgarstjórnar
 Mynd: Fréttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar.

Tilefni fundarins voru kvartanir vegna framgöngu lögreglu á hátíðum á vegum borgarinnar í sumar. Mörg mál eru í bótakröfuferli vegna fíkniefnaleitar lögreglu á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem fór fram án dómsúrskurðar og þá hefur handtaka mótmælanda í Hinsegin göngunni síðustu helgi sætt mikilli gagnrýni. Það er nú á borði nefndar um eftirlit með lögreglu. 

„Í þessari handtöku sem hefur verið mikið i umræðunni fórum við að tryggja öll gögn og tryggja upptökur og fórum og sendum málið sjálf til nefndar um eftirlit með lögreglu og óskuðum eftir að það yrði skoðað þannig að það verður bara farið yfir það af óháðum aðila,“ segir Sigríður Björk lögreglustjóri. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri.

Lögreglustjóri fór almennt yfir verklag lögreglunnar á stærri viðburðum. Að sögn Dóru þarf að skoða það gaumgæfilega. 

„Lögreglan er sá aðili i okkar samfélagi sem hefur einkarétt á því að beita valdi og því er mjög mikilvægt um að hún sé meðvituð um þessa heimild sem hún hafi frá almenningi og fari vel með þessi völd. “

Sigríður Björk segir kvartnir vegna starfa lögreglunnar komnar í markvissari farveg. „ Við erum náttúrulega með nefnd og það er gott fyrir okkur að það se farið yfir málin af óháðum aðila og meira öryggi fyrir borgara.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV