Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Handrit fjarlægð vegna öryggismála

Mynd með færslu
 Mynd:

Handrit fjarlægð vegna öryggismála

15.10.2013 - 19:35
Handrit Árna Magnússonar verða ekki sett á opinberar sýningar fyrr en Hús íslenskra fræða verður byggt. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ákvað að fjarlægja handritin úr Þjóðmenningarhúsinu í gær, þar sem þau höfðu verið til sýnis síðan 2002.

Þau 700 ára gömlu handrit Árna Magnússonar sem voru á sýningu í Þjóðmenningarhúsinu eru nú geymd í lokuðu herbergi í Árnagarði. Forstöðumaður Árnastofnunar segir þau ekki fara aftur til sýnis fyrr en Hús íslenskra fræða rísi. Handritin hafa verið til sýningar í Þjóðmenningarhúsinu undanfarin tíu ár. Þau eru frá 13. og 14. öld og meðal þeirra eru Konungsbók Eddu kvæða, Þormóðsbók Brennu-Njáls sögu, Flateyjarbók og Staðarhólsbók Grágásar. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ákvað þó um helgina að fjarlægja handritin úr húsinu.

Sólarhringsgæsla ekki tryggð
Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar segir ástæðuna vera þá að ekki var hægt að tryggja sólarhringsgæslu á handritunum. „Það var forsendan fyrir því að handritin voru sett á sýningu þar árið 2002 að það var sett sérstök fjárveiting til gæslunnar og nú í haust var ekki hægt að tryggja áframhald á gæslunni þannig að við urðum að taka þau aftur heim.“

Stofnun Árna Magnússonar gat ekki sætt sig við þá gæslu sem Þjóðmenningarhúsið bauð upp á eftir sameiningu þess við Þjóðminjasafnið í júní. Hún segir að auðvelt hafi reynst að taka ákvörðunina þegar ljóst var að gæslan yrði ekki tryggð. Guðrún segir að þar til Hús íslenskra fræða rísi verði ekki hægt að hafa handritin til sýnis frá degi til dags. „Það er auðvitað mjög skrýtið að við lyftum ekki og sýnum ekki okkar helstu dýrgripi.“

Ólíkar verklagsreglur
Til stendur að breyta fyrirkomulagi Þjóðmenningarhússins á næstu misserum og opna þar stóra sýningu um íslenskan sjónrænan arf. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður þvertekur fyrir að öryggismálum í byggingunni sé ábótavant. Verklagsreglur séu einfaldlega ólíkar hjá stofnunum. „Við ákváðum að fresta því að taka niður sjálfa handritasýninguna þar til eftir afmæli Árna Magnússonar, og við það hefur verið staðið, en núna í desember þá mun hefjast viðgerð á sölum og undirbúningur að gerð nýrrar sýningar, þannig að þetta er liður í undirbúningi að nýjum kafla í sögu Þjóðmenningarhússins.“

Hún reiknar fastlega með því að það verði handrit á þeirri sýningu sem til standi að setja upp í húsinu næsta sumar. Enginn ágreiningur ríki á milli stofnananna varðandi verkefnið. „Það hefði náttúrulega verið skemmtilegt að hafa handritin í sýningunni alveg þangað til að hún verður tekin niður núna í byrjun desember. Það er ákvörðun Árnastofnunar að taka niður handritin en sýningin að öðru leyti stendur þangað til hún verður öll tekin niður.“

Tengdar fréttir

Efnahagsmál

Óvissa um Hús íslenskra fræða

Innlent

Árnastofnun fær handrit