Sema óttast að með auknum sýnileika verði hatursfull orðræða viðteknari. Henry Alexander Henrysson, siðfræðingur og aðjúnkt við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, hefur líka áhyggjur af þessu. „Það er ekkert óeðlilegt við það að fólk bregðist við atburðum og atvikum og hegðun samborgara sinna með því að rísa upp, kvarta, tuða og skammast. Þannig verður siðferðið til hjá okkur. Það sem hefur gerst á undanförnum árum er auðvitað þessi tilkoma félagsmiðla. Mig grunar, án þess að ég viti það nákvæmlega að hluti af þessu hafi verið það að fólk byrjaði mikið að tjá sig í skjóli nafnleyndar, fyrstu, hávaðasömu einstaklngarnir voru kannski að koma fram þannig á þessum umræðuþráðum undir dulnefni. Á undanförnum árum hefur mér brugðið dálítið hvað fólk er tilbúið að koma fram undir fullu nafni sem það sjálft og það sem maður hefur áhyggjur af, eins og alltaf þegar reynir á siðferðileg viðmið og þau eru að þróast og breytast er að eitthvað sem áður þótti gjörsamlega óeðlilegt er farið að verða viðurkennt. Það er eins og ramminn hafi verið færður út og nú er þetta orðið þannig að það er gríðarlegt hömluleysi, fólk sleppir sér mjög fljótt til að hafa skoðanir á ákveðnum hlutum og segja hvað því finnst og jafnvel, sem er kannski alvarlegast í þessu, að lýsa því hvað það vilji gera við einstaklinga eða hvetur aðra til að gera.“
Óttast að nethegðun færist í raunheima
En geta þá þróast ákveðin siðferðisviðmið á netinu sem ekki eiga við í raunheimum? Henry segir það vera að gerast. „Fólki finnst kannski eðlilegt að tjá sig í kommentakerfum eða á Twitter, tísta eitthvað en það myndi aldrei segja það augliti til auglitis við aðra persónu, þess vegna eru þessar áhyggjur. Hvað gerist ef einhver byrjar á því? Ef þetta fer út fyrir þessa miðla? Það er í raun ekkert sem ég sé sem ætti að koma í veg fyrir það, líklega mun þaðgerast nema við náum að grípa í handbremsuna og samþykkjum þetta ekki sem samfélag, þessa hegðun.“
Auðvelt að ráðast á þig á netinu
Þegar hatursstormar geisa á samfélagsmiðlum er ekki einungis ráðist á fólk með orðum. Hakkarar réðust á vefsíðu Isavia og Ksí og Facebook-síða Belgans með burstann var líka hökkuð og búnir til grínaðgangar í hans nafni á Instagram. Ef einhverjum er illa við þig, er tiltölulega auðvelt fyrir þá sem áreita þig að skaða þig, til dæmis með því að ráðast á vefsíður þínar eða samfélagsmiðlaaðganga. Þetta er mat Theodórs R. Gíslasonar, tæknistjóra tölvuöryggisfyrirtækisins Syndis. Hann segir að það hafi færst í aukana að fólk beiti tölvuárásum til að áreita annað fólk á netinu. „Heldur betur, ég held þetta sé bara það sem koma skal á þessum tímum sem við lifum á í dag, þetta er internetöldin.“ Hann segir að til dæmis sé hægt að taka niður síður, eins og síður KSÍ og Ísavía. „Þá er hægt að valda miklu álagi með því að nota mikið af smituðum tölvum, það er tiltölulega auðvelt og kostar ofboðslega lítið líka. Þetta er orðið mjög þægilegt og auðvelt. Þetta er eitthvað sem margir sjá sér hag í að gera ef þeir vilja valda tjóni og það er augljóslega hægt að lama einhverjar þjónustur með svona hlutum.“
Theodór segir líka tiltölulega auðvelt fyrir nettröll að aðra sem vilja skaða að ráðast á samfélagsmiðlaaðganga einstaklinga. „Það er alveg ótrúlega einfalt og það kemur fólki á óvart þegar maður segir því lykilorðið sitt. Ég þori að veðja að af þeim sem eru að hlusta núna er örugglega hægt að segja 70 - 80% lykilorðið sitt.“ Þetta getur hann gert með því að fletta notendanöfnum fólks á samfélagsmiðlum upp á sérstökum síðum. „Það er alltaf verið að hakka síður út um allan heim og eftir innbrot eru lykilorð okkar gjarnan tekin og svo eru þau nýtt í þessum gagnalekum sem eiga sér stað hér og þar. Í dag, að treysta á notendanafn og lykilorð fyrir sína miðla, samfélagsmiðla og annað er bara klikkun, það er svo auðvelt að komast yfir þessar upplýsingar.“
Hann mælir með því að fólk sem vill forðast hakk eða annað ónæði að vera með tvíþætta auðkenningu, það sé ekki fullkomin lausn en miðlarnir mæli allir með því og bjóði upp á það.