Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hamslaus reiði á netinu og ýmsum brögðum beitt

12.06.2019 - 19:40
Mynd: Luis Villasmil / Unsplash
Síðastliðnar tvær vikur hafa þrír atburðir orðið til þess að brotist hefur út hamslaus reiði á samfélagsmiðlum. Þeir æstustu hafa látið ýmis ókvæðisorð falla, hótað ofbeldi, jafnvel sent morðhótanir. Er þetta til marks um að fólk sé í auknum mæli farið að sleppa sér algerlega á samfélagsmiðlum? Er nettröllum að fjölga? Er mark takandi á morðhótunum frá ókunnugu fólki á Facebook? Eru reiðir netverjar í auknum mæli farnir að beita tölvuárásum? Spegillinn ræddi þessi mál við sérfræðinga.

Brutu líklega margar greinar dýravelferðarlaga

Fyrst voru það sjómennirnir á Bíldsey sem birtu myndskeið þar sem þeir skáru sporð af hákarli sem flæktist í línunni hjá þeim. Þeir voru reknir fyrir athæfið og er málið nú á borði Matvælastofnunar. Spegillinn hafði samband við fulltrúa stofnunarinnar sem telur mennina hafa brotið nokkrar greinar dýravelferðarlaga. Þau ná til allra hryggdýra í lögsögu Íslands.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Hákarlinn sem var sviptur sporðinum.

Grófar hótanir gegn börnum

Reiðin í kringum þetta mál virðist hafa magnast verulega þegar bandaríski leikarinn Jason Momoa, sem meðal annars hefur leikið Aquaman, vakti athygli á því á Instagram-síðu sinni. Reiðir fylgjendur hans töluðu um að hafa uppi á mönnunum. Einn sjómannanna greindi síðar frá því í samtali við Vísi að honum hefði borist gríðarlegur fjöldi skilaboða sem mörg hafi snúist um að beita hann og í sumum tilfellum börn hans grófu ofbeldi. „Ég vona að einhver limlesti börnin þín þannig að þeim blæði út,“ skrifaði einn.

Himinhá sekt og reiðir Íslendingar

Næst var það rússneska samfélagsmiðlastjarnan Alexander Tikhomirov sem uppskar himinháa sekt fyrir að hafa ekið utan vegar á jarðhitasvæði í Mývatnssveit. Íslendingar helltu sér yfir hann í netheimum og í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér gaf hann í skyn að honum hefðu borist hatursfull skilaboð, einhver hafi sagst vonast til þess að hann færist í flugslysi. 

Tyrklandsstormurinn

Loks er það sá stormur sem geisað hefur á samfélagsmiðlum í tengslum við komu karlalandsliðs Tyrklands í fótbolta til landsins. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, rekur upphafið til kvartana tyrkneska liðsins um tafsamar móttökur í Keflavík. „Tyrkirnir virðast strax hafa farið í það að hringja og reyna að leita sér aðstoðar bæði hjá tyrkneskum yfirvöldum og Knattspyrnusambandi Evrópu. Við það verður einhver atburðarás þar sem stuðningsmenn liðsins draga þá ályktun að það hafi verið brotið á þeirra mönnum og þeir byrja þá með þessar ógeðfelldu hótanir á okkar samfélagsmiðlum og í framhaldinu á samfélagsmiðlum leikmanna, starfsmanna og annarra sem tengjast KSÍ og landsliðinu.“ 

Belgíski gerviblaðamaðurinn sem otaði uppþvottabursta framan í fyrirliða liðsins bætti svo ekki úr skák. Sumum Tyrkjum fannst uppátækið bera vott um rasisma. Belginn, Corentin Siamang, birti í dag myndband af sér þar sem hann baðst afsökunar íklæddur tyrkneska landsliðsbúningnum og hvatti liðið til dáða, hann hafi ekki ætlað að særa neinn.

Í viðtali við RTL-fréttastofuna í Belgíu segir hann að honum og fólkinu í kringum hann hafi borist fjöldi hótana um gróft ofbeldi. 

Söfnuðu saman skjáskotum

Viðbrögð stuðningsmanna íslenska landsliðsins hafa verið misjöfn, sumir hafa reiðst á móti, jafnvel svarað í sömu mynt, aðrir hafa hlegið að misheppnuðum tilraunum Tyrkja til að þýða fúkyrðaflaum sinn og hótanir yfir á íslensku með hjálp Google translate og enn aðrir reynt að stilla til friðar. Klara segir að fólki innan sambandsins hafi áður borist hótanir en aldrei í sama mæli og nú. Knattspyrnusamband Íslands hefur í dag unnið að því að taka saman skjáskot af hótunum sem borist hafa íþróttafólki og starfsmönnum, meira að segja leikmanni yngra landsliðs. „Flestir taka þessu með tiltölulega afslöppuðum hætti en hér í sambandinu tökum við þessu þó alvarlega og höfum gert athugasemdir eða réttara sagt látið Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, vita. Sambandið er skipuleggjandi landsleikjanna hér og er yfir öryggismálum á þeim, hver viðbrögðin verða get ég ekki svarað fyrir um.“ 

Klara tekur fram að samskiptin við tyrkneska landsliðið hafi gengið vel, það sé ekkert sem bendi til þess að fúkyrðaflaumurinn og hótanirnar séu runnin undan rifjum íþróttahreyfingarinnar í Tyrklandi. 

Fámennur tröllahópur

Mynd með færslu
 Mynd: sema erla serdar
Sema Erla Serdar.

Sema Erla Serdar, stjórnmála- og evrópufræðingur, hefur barist gegn hatursorðræðu. Hún telur að nýliðna atburðir endurspegli þróun sem hafi átt sér stað síðastliðin ár. Hatursorðræða á netinu sé orðin meiri og sýnilegri og hafi leitt til ofbeldis gegn minnihlutahópum. Áreiti hafi að sama skapi aukist og umræðan á netinu í raun orðin svo sorgleg að það sé varla hægt að kalla hana umræðu. „Einhverjir gera þetta í gríni, aðrir til að fá útrás fyrir reiði. Þarna ertu með þrjú dæmi og til dæmis sérðu mismunandi þjóðerni en allir eiga þessir einstaklingar það sameiginlegt að þeir eru að fara hamförum á internetinu.“ 

Hún telur að hér á landi sé tiltölulega fámennur hópur fólks sem láti oft hatursfull ummæli falla á netinu, eins konar nettröllahópur. Þessi hópur sé mjög hávær og fari stækkandi. Þá fjölgi oft tímabundið í hópnum í tengslum við ákveðna viðburði, eins og fótboltaleikinn í gær. Viðbrögð Tyrkja hafi verið út úr kortinu en viðbrögð Íslendinga hafi ekki alltaf verið mikið betri. 

Láta allt flakka í skjóli skjásins og skeyta ekki um afleiðingar

Sema segir að það sé ekki alltaf um skipulagðar herferðir að ræða þegar kommentaregnið dynur á samfélagsmiðlum, þó þær séu til. Oft byrji einn og aðrir bætist í hópinn, svo stigmagnist þetta hratt og endi oft á því að fólk láti grófar hótanir flakka í skjóli tölvuskjásins án þess að huga að afleiðingum þess. 

En á að taka fólk sem hótar ofbeldi á netinu alvarlega? Sema segir að það sé erfitt að túlka skrif fólks í netheimum enda hvorki hægt að ráða í svipbrigði þess né líkamstjáningu. Allar alvarlegar hótanir þurfi því að skoða. „Við höfum séð að það sem oft hefst sem hatur á internetinu, því fylgir líkamlegt ofbeldi, árásir, morð jafnvel. Svo auðvitað fyrir einstaklinginn sem verður fyrir þessum árásum, viðbrögðin hans, ég meina það eru dæmi um að fólk sem verður fyrir neteinelti eða hatri á netinu hafi tekið sitt eigið líf.“ 

Telur nafnleyndina í upphaf hafa haft áhrif

Mynd með færslu
Henry Alexander Henrysson, aðjúnkt við sagnfræði- og heimspekideild HÍ. Mynd:
Henry Alexander telur ekki ólíklegt að fólk fari að sleppa sér meira í raunheimum.

Sema óttast að með auknum sýnileika verði hatursfull orðræða viðteknari. Henry Alexander Henrysson, siðfræðingur og aðjúnkt við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, hefur líka áhyggjur af þessu. „Það er ekkert óeðlilegt við það að fólk bregðist við atburðum og atvikum og hegðun samborgara sinna með því að rísa upp, kvarta, tuða og skammast. Þannig verður siðferðið til hjá okkur. Það sem hefur gerst á undanförnum árum er auðvitað þessi tilkoma félagsmiðla. Mig grunar, án þess að ég viti það nákvæmlega að hluti af þessu hafi verið það að fólk byrjaði mikið að tjá sig í skjóli nafnleyndar, fyrstu, hávaðasömu einstaklngarnir voru kannski að koma fram þannig á þessum umræðuþráðum undir dulnefni. Á undanförnum árum hefur mér brugðið dálítið hvað fólk er tilbúið að koma fram undir fullu nafni sem það sjálft og það sem maður hefur áhyggjur af, eins og alltaf þegar reynir á siðferðileg viðmið og þau eru að þróast og breytast er að eitthvað sem áður þótti gjörsamlega óeðlilegt er farið að verða viðurkennt. Það er eins og ramminn hafi verið færður út og nú er þetta orðið þannig að það er gríðarlegt hömluleysi, fólk sleppir sér mjög fljótt til að hafa skoðanir á ákveðnum hlutum og segja hvað því finnst og jafnvel, sem er kannski alvarlegast í þessu, að lýsa því hvað það vilji gera við einstaklinga eða hvetur aðra til að gera.“

Óttast að nethegðun færist í raunheima

En geta þá þróast ákveðin siðferðisviðmið á netinu sem ekki eiga við í raunheimum? Henry segir það vera að gerast. „Fólki finnst kannski eðlilegt að tjá sig í kommentakerfum eða á Twitter, tísta eitthvað en það myndi aldrei segja það augliti til auglitis við aðra persónu, þess vegna eru þessar áhyggjur. Hvað gerist ef einhver byrjar á því? Ef þetta fer út fyrir þessa miðla? Það er í raun ekkert sem ég sé sem ætti að koma í veg fyrir það, líklega mun þaðgerast nema við náum að grípa í handbremsuna og samþykkjum þetta ekki sem samfélag, þessa hegðun.“ 

Auðvelt að ráðast á þig á netinu

Þegar hatursstormar geisa á samfélagsmiðlum er ekki einungis ráðist á fólk með orðum. Hakkarar réðust á vefsíðu Isavia og Ksí og Facebook-síða Belgans með burstann var líka hökkuð og búnir til grínaðgangar í hans nafni á Instagram. Ef einhverjum er illa við þig, er tiltölulega auðvelt fyrir þá sem áreita þig að skaða þig, til dæmis með því að ráðast á vefsíður þínar eða samfélagsmiðlaaðganga.  Þetta er mat Theodórs R. Gíslasonar, tæknistjóra tölvuöryggisfyrirtækisins Syndis. Hann segir að það hafi færst í aukana að fólk beiti tölvuárásum til að áreita annað fólk á netinu. „Heldur betur, ég held þetta sé bara það sem koma skal á þessum tímum sem við lifum á í dag, þetta er internetöldin.“ Hann segir að til dæmis sé hægt að taka niður síður, eins og síður KSÍ og Ísavía. „Þá er hægt að valda miklu álagi með því að nota mikið af smituðum tölvum, það er tiltölulega auðvelt og kostar ofboðslega lítið líka. Þetta er orðið mjög þægilegt og auðvelt. Þetta er eitthvað sem margir sjá sér hag í að gera ef þeir vilja valda tjóni og það er augljóslega hægt að lama einhverjar þjónustur með svona hlutum.“ 

Theodór segir líka tiltölulega auðvelt fyrir nettröll að aðra sem vilja skaða að ráðast á samfélagsmiðlaaðganga einstaklinga. „Það er alveg ótrúlega einfalt og það kemur fólki á óvart þegar maður segir því lykilorðið sitt. Ég þori að veðja að af þeim sem eru að hlusta núna er örugglega hægt að segja 70 - 80% lykilorðið sitt.“ Þetta getur hann gert með því að fletta notendanöfnum fólks á samfélagsmiðlum upp á sérstökum síðum. „Það er alltaf verið að hakka síður út um allan heim og eftir innbrot eru lykilorð okkar gjarnan tekin og svo eru þau nýtt í þessum gagnalekum sem eiga sér stað hér og þar. Í dag, að treysta á notendanafn og lykilorð fyrir sína miðla, samfélagsmiðla og annað er bara klikkun, það er svo auðvelt að komast yfir þessar upplýsingar.“

Hann mælir með því að fólk sem vill forðast hakk eða annað ónæði að vera með tvíþætta auðkenningu, það sé ekki fullkomin lausn en miðlarnir mæli allir með því og bjóði upp á það. 

Mynd með færslu
 Mynd: Theodór R.
Theodór hjá Syndis.

Senda lögregluna heim til fólks

Theodór nefnir aðrar leiðir sem tröll og aðrir sem áreita í netheimum nota til að skaða viðföng sín. Hann nefnir til dæmis það að Swat-a. „Það er rosalega vinsælt í dag, kannastu við Twitch eða svona miðla þar sem fólk er að streyma alls konar hlutum sem það er að gera daginn út og inn? Þetta er sem sagt fólk, á Youtube eða annars staðar sem streymir því sem það er að gera og gjarnan eru þetta tölvuleikir eða eitthvað sem það er að spila. Það er orðið mjög algengt að það sé hringt í lögreglu og sagt að þarna sé einhver vopnaður maður eða kona sem er að hóta að drepa og lögreglan ræðst inn og skýtur fólk, þetta er að gerast. Fólk notar náttúrulega þessa vörn, ég var bara að leika mér eða ég var bara að trolla en þetta er dauðans alvara, þessir hlutir sem viðgangast á netinu í dag.“ 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV