Orðið hamfarahlýnun varð algengt í almennri umræðu um loftslagsmál á nýliðnu ári. Fyrstu heimildir um orðið eru þó frá 2013.
Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar, segir að elsta þekkta dæmið um orðið hamfarahlýnun sé að finna í grein eftir Ara Trausta Guðmundsson jarðeðlisfræðing í Fréttablaðinu 1. júní 2013. Þar segir Ari Trausti: „Samkvæmt Umhverfisstofnun SÞ og Alþjóðabankanum má aðeins vinna lítinn hluta óunnins kolefniseldsneytis ef komast á hjá hamfarahlýnun.“ Þá segir Ágústa að Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, hafi notað orðið mánuði síðar í grein í Fréttablaðinu þar sem hún fjallaði um styrk gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum.
Þótt fyrstu heimildirnar séu frá 2013 varð orðið ekki algengt í almennri umræðu um loftslagsmál fyrr en Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur notaði það á Bókmenntaþingi síðastliðið vor. Orðið var áberandi í fjölmiðlaumræðu en var einnig mikið notað annars staðar, til dæmis í umræðum á Alþingi.
Ágústa bendir á að orðið hamfarahlýnun sé ekki fræðiorð eða svokallað íðorð. Orðið sé gildishlaðið og lýsi ekki núverandi ástandi í loftlagsmálum en með forvörnum megi komast hjá því að það verði slík hlýnun með skelfilegum afleiðingum fyrir náttúruna og jarðarbúa þegar fram líða stundir. Hnattræn hlýnun (e. global warming) sé aftur á móti fræðilegt orð sem notað er um þá hækkun á meðalhitastigi sem mæld hefur verið á jörðinni frá því að mælingar hófust.
Markmiðið með því að velja orð ársins er að draga fram þau orð sem einkenndu þjóðfélagsumræðuna á nýliðnu ári. Orðin þurfa að hafa verið áberandi eða endurspegla samfélagið á einn eða annan hátt. Fjöldi tillagna að orði ársins barst frá hlustendum og úr þeim voru tíu valin á lista yfir þau orð sem komu til greina sem orð ársins 2019. Þau orð sem hlustendum þóttu standa upp úr á þeim lista voru hamfarahlýnun, loftslagskvíði og pokasvæði. Orðið hamfarahlýnum hlaut flest atkvæði að mati hlustenda. Stofnun Árna Magnússonar sótti orð ársins í textasöfn sem endurspegluðu umræðuna í fjölmiðlum og samfélaginu öllu og orðið sem þar stóð upp úr var sama orð og hlustendur völdu, hamfarahlýnun.