Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hallgrímur, Sigrún og Flóra Íslands verðlaunuð

Mynd með færslu
 Mynd:

Hallgrímur, Sigrún og Flóra Íslands verðlaunuð

29.01.2019 - 20:32

Höfundar

Hallgrímur Helgason, Sigrún Eldjárn og höfundar Flóru Íslands, Hörður Kristinsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Jón Baldur Hlíðberg, fá Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti í dag, þriðjudaginn 29. janúar, Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. 

Hallgrímur Helgason fékk þar verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Sextíu kíló af sólskini. Sigrún Eldjárn fékk verðlaun í flokki barna- og ungmennabókmennta fyrir Silfurlykilinn. Í flokki fræðirita og bóka almenns efnis fengu höfundar Flóru Íslands verðlaunin, þau Hörður Kristinsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Jón Baldur Hlíðberg.

Hvernig Ísland fór úr engu í eitthvað

Skáldsaga Hallgríms Helgasonar, Sextíu kíló af sólskini, greinir frá miklum umbrotatímum á Íslandi um aldamótin 1900, þar sem nútíminn brestur á með miklum látum í sjávarþorpi. Í sögunni fá lesendur að kynnast kotbændum sem lifa við örbirgð en upplifa miklar breytingar og ríkidæmi þegar allt fyllist af síld og síðan Norðmönnum. 

Mynd:  / 
Hallgrímur sagði frá skáldsögunni Sextíu kíló af sólskini í Kiljunni.

Hallgrímur segir að bókin gerist á gatnamótum sögunnar þar sem mikil umskipti verða á niðurnjörvuðu samfélagi. „Þú gast ekki einu sinni farið og búið í annarri sveit ef þú vildir, nema að fá leyfi frá prestinum eða hreppstjóranum. En svo koma Norðmennirnir inn og raska þessu.“ Leiðsögumaðurinn í gegnum þessi umskipti er hinn ungi Gestur sem lendir í ýmsu. „Mig langaði til að segja persónulega sögu hans, en líka þjóðfélagslega sögu um það hvernig Ísland fór úr myrkrinu inn í ljósið, úr fortíðinni og inn í nútímann. Eins og hann segir í bókinni „úr engu í eitthvað“.“

Framtíðarsaga sem vekur lesendur til umhugsunar

Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn er ískyggileg framtíðarsaga sem gerist í heimi þar sem mannkyn hefur eyðilagt jörðina. Í henni er sagt frá ráðagóðum systkinum, þeim Sumarliða og Sóldísi, sem leggja af stað í ferðalag  ásamt dularfullri stelpu.

Mynd: Forlagið / Forlagið
Sigrún Eldjárn ræddi um Silfurlykilinn, og ýmislegt annað, við Óðinn Jónsson í Morgunvaktinni á Rás 1.

Silfurlykillinn gerist þegar öll sú tækni sem við treystum á í dag virkar ekki lengur segir Sigrún í samtali við Óðinn Jónsson í Morgunvaktinni á Rás 1. „Mannfólkið er búið að eyðileggja heiminn, sem við erum byrjuð að gera eins og sést á loftslagsbreytingum og ýmsu.“ Silfurlykillinn byggir á hugmynd sem hefur gerjast með henni lengi – en er svo allt í einu efst á baugi í samtímanum. 

Náttúra getur verið stórkostleg án fíla og gíraffa

Flóra Íslands – blómplöntur og byrkningar eftir Hörð Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóru Ellen Þórhallsdóttur er yfirgripsmesta rit sem út hefur komið um íslenskar plöntur. Allar innlendar tegundir í flórunni er að finna í bókinni auk nýrra landnema. „Það eru miklu ítarlegri upplýsingar um hverja tegund en hefur verið í fyrri ritum,“ segir Þóra Ellen í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni. „Það eru miklu meiri upplýsingar af ólíkum toga um plönturnar, vistfræðina, æxlunarlíffræðina, bæði fornar nytjar og nýjar nytjar, efnaframleiðslu og nýtingu til lyfjagerðar.“

Mynd:  / 
Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Jón Baldur Hlíðberg ræddu við Egil Helgason um bókina í Kiljunni.

Myndir Jóns Baldurs í bókinni undirstrika hvað norðlægar plöntutegundir eru smágerðar. „Það er eitthvað sem ég held að Íslendingar verði að venja sig við, það er að skerpa fókusinn á hið smáa,“ segir Jón Baldur. „Ég þekki þetta frá því ég var barn, það er hægt að upplifa dramatík og mikið spennandi líf niðri í fjöru í miðjum janúar þess vegna. Bara ef menn eru með fókusinn á því. Það þarf ekkert fíla og gíraffa til þess að vera með stórkostlega náttúru. Hún er við fótskör okkar allan ársins hring.“

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Steingrímur Þórðarson, Þórunn Sigurðardóttir og Gísli Sigurðsson sem var jafnframt var formaður nefndarinnar.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens; opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.

Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda sem stofnað var í Reykjavík í janúar 1889. Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls 10 bækur. Fyrsti verðlaunahafinn var ljóðskáldið Stefán Hörður Grímsson sem hlaut verðlaunin fyrir bókina Yfir heiðan morgun. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðibækur og rit almenns efnis hins vegar. Þannig hafa verðlaunin haldist óbreytt þar til ársins 2013 að við bætist flokkur barna- og ungmennabóka.

Tilnefningar eru kynntar þann 1. desember ár hvert og verðlaunin síðan veitt síðla janúar eða í upphafi febrúar. Óháðar tilnefninganefndir, skipaðar þremur dómbærum fulltrúum hver, velja þær fimm bækur í hverjum flokki sem helst þykja skara fram úr. Lokaval er í höndum formanna nefndanna þriggja og forsetaskipaðs dómnefndarformanns. Velja þeir eina bók úr hverjum flokki þannig að þrjár bækur hljóta á endanum Íslensku bókmenntaverðlaunin. Forseti Íslands afhendir verðlaunin á Bessastöðum við hátíðlega athöfn. Allir sem gefa út bækur á Íslandi geta lagt fram bækur til verðlaunanna sama ár og þær koma út, hvort sem þeir eru í Félagi íslenskra bókaútgefenda eða ekki, og greiða fyrir það hóflegt gjald. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir höfund hvers verðlaunaverks. Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ári síðan, árið 2017 hlutu Unnur Þóra Jökulsdóttir fyrir Undur Mývatns, Áslaug Jónsdóttir, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler fyrir Skrímsli í vanda og Kristín Eiríksdóttir fyrir Elín, ýmislegt.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Haustlauf, stór örlög og gatnamót í sögu lands

Bókmenntir

Ljón, rottur, útlagar og ískyggileg framtíð

Bókmenntir

Frá flóru Íslands til Jesú Krists

Bókmenntir

Áslaug, Kristín og Unnur fá bókmenntaverðlaunin