Hálfdán var einn fremsti fræðimaður Íslands í fugla- og skordýrafræðum þrátt fyrir takmarkaða skólagöngu. Á unglingsaldri fór hann að skoða og skrásetja fugla og nafngreina plöntur og safna þeim, og bráðlega bættust skordýr, köngulær og fleiri smádýr við áhugasvið hans. Fyrstu greinar hans birtust í Náttúrufræðingnum 1950, um gróður í Ingólfshöfða og fuglalíf á Laugarvatni. 1951 bættist við grein um gróður og dýralíf í Esjufjöllum. Árið 1955 var hann orðinn þekktur sem fuglafræðingur. Árið 2011 hlaut hann Bláklukkuna, viðurkenningu Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST), sem veitt er fyrir störf í þágu náttúruvísinda og náttúruverndar á Austurlandi.
Systkinin á Kvískerjum voru áhugasöm um ræktun lands og lýðs og á undan sinni samtíð varðandi náttúru- og gróðurvernd, segir á vef Umhverfisráðuneytisins, og ritaskrá Kvískerjabræðra telur tugi greina og fræðirita.
Fréttastofa hitti Hálfdán árið 2011 og ræddi við hann um ævistarfið. Hægt er að horfa á fréttina í spilaranum hér fyrir ofan.